135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[14:54]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hygg að það hafi verið á 9. áratug síðustu aldar að Sundabraut kom fyrst inn á aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Árið 1996 hófst síðan formlegt undirbúningsferli af hálfu Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar varðandi lagningu Sundabrautar.

Ég tel að það sé komið að þeim tímapunkti að taka af skarið varðandi leguna, hvar brautin eigi að liggja. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna þeim viðhorfsbreytingum sem mér finnast hafa orðið í þessu máli varðandi legu brautarinnar. Mér virðist málið þannig að á hinu háa Alþingi séu flestir þeir sem hafa tjáð sig um málið fylgjandi ytri leið í göngum. Í borgarstjórn Reykjavíkur er þverpólitísk samstaða allra flokka um að fara ytri leiðina í göngum. Það er langsamlega skynsamlegasta lausnin, skipulagslega, fyrir umhverfið og umferðina.

Ég treysti á hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) og ríkisstjórn að taka þá einu vitrænu afstöðu í þessu máli, að velja ystu leið (Forseti hringir.) í göngum, ekki með hagsmuni höfuðborgarinnar í huga, heldur með hagsmuni landsins alls í huga.