135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[15:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir alla þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál, mikla og góða eins og eðlilegt er. Að stærstum hluta hefur hún verið málefnaleg ef frá er skilin kannski síðasta ræða hv. fyrirspyrjanda. (Gripið fram í.)

Ég get fullvissað menn um að þetta mál er í eins miklum forgangi og hægt er að hafa það og unnið er að því. Við vitum að þetta er eitt brýnasta verkefnið sem fram undan er í vegamálum á Íslandi, menn þurfa ekkert að efast um það.

Hins vegar vil ég minna á — og það er rétt sem sagt hefur verið um skipulagsmál í 20 ár og umræðu um Sundabraut eins langt aftur og elstu menn muna — að málið er þó komið þetta langt núna. En þannig var að síðastliðið sumar, 1. júlí eða 1. ágúst, lauk loksins eftir beiðni rannsóknum vegna hugsanlegrar jarðgangagerðar á þessari leið. Eftir það var farið í frekari úrvinnslu á þeim gögnum eins og ævinlega þarf að gera, sama hvort um er að ræða jarðgöng undir sjó eða ofan jarðar, og niðurstaðan kemur í framhaldi af því.

Um skýrsluna sem Vegagerðin lagði fram eða samráðshópurinn og unnin var af verkfræðistofunni eftir mikla könnun hefur orðið mikil umræða. Þess vegna ég held ég að það sé hið besta mál eins og ég sagði í fyrsta svari mínu að samráðsnefndin, þ.e. íbúasamtök Grafarvogs og Laugardals o.fl., heimsótti mig í gær og kvartaði yfir því að ekki hafi verið boðað til fundar til að skýra frá skýrslunni áður en hún var gerð opinber. Eftir að hafa kynnt mér það betur kom í ljós að þessi nefnd er á vegum og forræði Reykjavíkurborgar. Hins vegar höfum við óskað eftir því, og Vegagerðin mun beita sér fyrir því, að þessi fundur verði haldinn ásamt því að halda kynningarfund fyrir íbúa þessa svæðis og aðra sem vilja koma — þessi framkvæmd er auðvitað ekki bara fyrir íbúa Reykjavíkur heldur Íslendinga alla — þar sem málin verða skýrð af þeim fræðingum sem komu að þessu verki og fólk getur spurt spurninga og fengið svör við þeim.