135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þegar rætt er um Vesturlandsveginn ber auðvitað að hafa það alveg sérstaklega í huga að eins og hann er í dag er hann mikil slysagildra. Það eru fjölmörg vegamót á veginum þar sem ekið er þvert inn á veginn og í veg fyrir þá umferð sem eftir veginum fer eins og hann liggur í dag. Sérstaklega á þetta við um Kjalarnesið víða og í því liggja auðvitað miklar slysagildrur og mjög nauðsynlegt að fara að huga að því hvernig það á að leysa.

Ég vil því hvetja hæstv. samgönguráðherra til að setja þetta mál í mikinn forgang vegna þess að þarna erum við að tala um veg sem ber mikla umferð og er þannig úr garði gerður að á hverjum einasta degi gæti í raun orðið þar dauðaslys við innkeyrslu og útkeyrslu af brautinni eins og hún er í dag.