135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Full ástæða er til að þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir með þeim fjölmörgu sem hafa sagt að það sé ánægjulegt að heyra hve víðtækur stuðningur er við það að leggja áherslu á höfuðborgarsvæðið. Þó að ég vilji að sjálfsögðu halda því til haga að mörg samgöngumál vítt og breitt um landið eru brýn og mega ekki bíða, er ánægjulegt að sjá að menn hafa verulegan áhuga á því að horfa til höfuðborgarsvæðisins.

Virðulegur forseti. Mér er nokkur vandi á höndum, ég veit ekki hvort ég á að óska eftir því að klukkan verði stöðvuð. Hæstv. samgönguráðherra tók nefnilega upp á þeirri nýbreytni að ætlast til þess að ég, þingmaðurinn, svaraði fyrirspurn frá honum í fyrirspurnatíma til ráðherrans. Breytingar á þingsköpum gefa hæstv. samgönguráðherra fullt tækifæri til að spyrja mig undir liðnum um störf þingsins og ég bíð þá eftir því — (Gripið fram í.) Nei, nei, „og þingmenn“ stendur, „og þingmenn“, svo að flutningsmaður frumvarps um þingsköp sé upplýstur um það hvað í því stendur.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til ítarlegrar umræðu og hugsanlega skoðanaskipta við hæstv. samgönguráðherra um fjármögnun í samgöngumálum. Ég tel það mjög áhugavert viðfangsefni og mjög mikilvægt. Frá mínum bæjardyrum séð er eðlilegt að umferðin greiði þann kostnað sem hlýst af samgöngukerfinu. Mér finnst það t.d. mikilvægt umhverfismál. En ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að mismuna eins og gert er í dag og við komum kannski betur að í umræðum hér um næsta mál og þriðju raðspurninguna sem ég lagði fyrir hæstv. samgönguráðherra.

Ég vil þakka fyrir þau svör sem hann hefur gefið við þessari spurningu. Ég mun ekki liggja á liði mínu í samgöngunefnd og ég heyri það af málflutningi annarra þingmanna í samgöngunefnd að þau eru öll sammála um að þessi mikilvæga framkvæmd þurfi að komast á skrið, og að því getum við að sjálfsögðu (Forseti hringir.) stuðlað í umræðum um samgönguáætlun sem mun fara fram áður en langt um líður.