135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

323. mál
[15:24]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Þá er komið að því að svara þriðju spurningu hv. þingmanns og snýr hún nú að tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Í fyrsta lagi er spurt:

„Mun ráðherra beita sér fyrir því að tvöföldun Hvalfjarðarganga verði í næstu samgönguáætlun?“

Vegagerðin og Spölur ehf. gerðu með sér samkomulag árið 2007 m.a. um að hefja frumundirbúning að tvöföldun Hvalfjarðarganga. Í því sambandi þarf að horfa til margra þátta eins og aukinnar afkastagetu, aukins umferðaröryggis, gerðar umhverfisskýrslu vegna framkvæmdarinnar og laga og reglna um sérleyfi og útboð. Meðan niðurstöður liggja ekki fyrir um þau atriði sem Vegagerðin og Spölur ehf. sömdu um að tekin yrðu til skoðunar er ótímabært að taka ákvörðun um hvort Hvalfjarðargöng verði á næstu samgönguáætlun sem væntanlega verður til ársins 2018.

Í öðru lagi er spurt:

„Hvenær mætti búast við að framkvæmdir gætu hafist við þá mikilvægu samgöngubót?“

Vísað er til svars við spurningu 1 en þar kemur fram að ótímabært er að tímasetja tvöföldun Hvalfjarðarganga.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hvaða stefnu hefur ráðherra um fjármögnun verkefnisins? Mun hann tryggja jafnt aðgengi allra vegfarenda um göngin eða hyggst hann leggja til upptöku veggjalda?“ — Þetta er spurning sem við höfum heyrt áður.

Vísað er í svar við spurningu 1 en þar kemur fram að ótímabært er að tímasetja tvöföldun Hvalfjarðarganga. Forsaga og forsenda Hvalfjarðarganga er hins vegar sú að einkaaðilar með nokkrum stuðningi ríkissjóðs tóku að eigin frumkvæði það verkefni að sér að gera göng undir Hvalfjörð. Þótt ríkið kæmi ekki beint að framkvæmdinni studdi það hana á ýmsan hátt en ríkið hafði á þeim tíma ekki fjármagn til verksins. Forsendur fyrir gjaldtökunni í Hvalfjarðargöngum voru auðvitað þær að vegfarendur ættu annan kost en að greiða veggjald, í þessu tilviki að aka fyrir Hvalfjörð. Ekki verður séð að forsendur þessar hafi breyst í aðalatriðum og munu ekki gera þótt Hvalfjarðargöng verði tvöfölduð.

Það ber að hafa í huga að veggjald í Hvalfjarðargöngum er afar lágt, eða 240 kr. á fólksbíl með fullum afslætti. Er augljóst að með svo lágu veggjaldi er gríðarlegur sparnaður við að aka um göngin frekar en fyrir Hvalfjörð. Rétt er þó að fram komi að gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum verður að skoða í víðara samhengi. Ákvörðun um áframhaldandi gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum verður að skoða í samhengi við mótun heildstæðrar og samræmdrar stefnu um gjaldtöku í vegakerfinu.

Ég ítreka svo, virðulegi forseti, spurningu mína til hv. þingmanns — það hefur auðvitað oft gerst að þingmenn svari líka í ræðum sínum þegar þeir bera fram spurningar: Hver er skoðun viðkomandi þingmanns? Mér fannst það alveg sérstaklega gott sem gert var í upphafi með Hvalfjarðargöng þegar þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lagði til að Hvalfjarðargöng yrðu fjármögnuð með því að rukka veggjald. Hafi hann þökk fyrir það vegna þess að þar var brotið blað. Ég er ekki viss um að af framkvæmdum hefði orðið ef við hefðum ekki verið með veggjöldin.