135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

323. mál
[15:28]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég er alls ekki sannfærður um að tvöföldun Hvalfjarðarganga sé mikilvægt mál, ég held að menn þurfi að skoða allar leiðir áður en lagt er í svo dýra framkvæmd. Í fyrsta lagi veggjaldið sem tekið er við göngin, það þrengir umferðina og tefur hana. Veggjaldið um Hvalfjarðargöngin stingur í stúf við aðrar umferðaræðar á Íslandi. Skuldlaus ríkissjóður hugsar öðruvísi en rammskuldugur ríkissjóður, þess vegna þurfa menn að fara yfir þetta.

Það er hjáleið, Hvalfjörðurinn er til staðar. Tvöföldun vegarins upp í Borgarnes og austur fyrir fjall mun rýmka umferðina. Við þurfum að taka ákvörðun um hálendisvegi yfir Kjöl og Sprengisand sem munu létta á þessari umferð. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að skoða þetta heildstætt og fara yfir málið, menn eiga ekki að rasa um ráð fram. Ég hygg að Hvalfjarðargöngin beri umferðina um langa framtíð ef aðrar leiðir verða tvöfaldaðar og gerðar greiðfærari og horft er til annarra átta, (Forseti hringir.) annarra framkvæmda sem eru mjög mikilvægar í samgöngumálum (Forseti hringir.) Íslands eins og ég hef hér bent á.