135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

323. mál
[15:30]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég tel fullkomlega eðlilegt að taka hóflegt gjald á dýrustu mannvirkjaleiðum á Íslandi. Ástæðan fyrir því að Hvalfjarðargöngin voru byggð var einmitt lykillinn í þeim efnum og Íslendingar lögðu ekki eina einustu krónu í gerð sjálfra jarðganganna undir Hvalfjörð, ekki krónu, það voru erlendir fjárfestar. Þeir fá borgað hraðar vegna þess að verið hefur miklu meiri umferð en reiknað var með, ekki fjórföld eins og hv. fyrirspyrjandi sagði heldur þreföld. Reiknað var með 1.700 bílum á dag en nú eru þeir rétt rúmlega 5.000 á dag og það veldur því að miklu hraðar er greitt niður.

Það kemur auðvitað að tvöföldun Hvalfjarðarganga en það eru mörg önnur stór verkefni, eins og hv. síðasti ræðumaður, Guðni Ágústsson, sagði, sem taka þarf ákvörðun um og framfylgja áður en það fer inn á vegáætlun að tvöfalda Hvalfjarðargöng, eins og reyndar hæstv. samgönguráðherra vék einnig að.