135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

323. mál
[15:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir umræðuna sem farið hefur fram um samgöngumál hér á þessum þingfundi með þeim þremur fyrirspurnum sem hv. þingmaður lagði fram. Ég held að þær hafi verið mjög góðar og fínt að fara í gegnum málið og að þingmenn hafi getað lýst sínum skoðunum hér.

Nú ræðum við um Hvalfjarðargöng. Það er nú svo — það er dálítið sérstakt að segja frá því að skuld Spalar er nú í kringum 4 milljarðar kr. sem er víst sama upphæð og göngin kostuðu á sínum tíma. Auðvitað var það þannig að lánin voru til að byrja með óhagstæð. Þeim hefur síðan verið skuldbreytt þannig að það stendur betur núna. Komið hefur fram í þessari lækkun sem við höfum rætt um, 240 kr. lækkun — eins og einhver sagði sem ég hitti á förnum vegi og talaði um að hann var andvígur því að leggja niður gjaldið. Sá ágæti maður nefndi að það væri eins og að leggja bíl hér í miðborg Reykjavíkur í klukkutíma og 20 mínútur, ef ég man rétt.

Við höfum rætt hér um stóran og mikinn málaflokk og miklar framkvæmdir sem eru á samgönguáætlun sem ýmist eru settar inn með sérstaka fjáröflun eða einhverjar ákveðnar upphæðir eins og Sundabraut. Mér reiknast til að framkvæmdirnar sem við ræðum um, þ.e. Sundabraut, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur, séu framkvæmdir upp á svona 50–60 milljarða kr. Í samgönguáætlun á fjárlögum gæti ég ímyndað mér að séu svona 13–15 milljarðar þannig að mismunurinn er það sem eftir stendur og við höfum hér gert að umtalsefni, það sem stendur inni í samgönguáætlun með sérstakri fjáröflun. Það er okkar á Alþingi að útfæra það og þess vegna fagna ég því og þakka fyrir það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði hér áðan um að hann væri ekki hræddur við að skoða gjaldtöku hvað þetta varðar til að flýta fyrir framkvæmdum.

Ég ítreka þakkir mínar til (Forseti hringir.) hv. þingmanna við umræðu um samgöngumál.