135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

neyðarbíll án læknis.

[10:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra og spyr hvernig það geti verið forsvaranlegt að mati ráðherrans að sparnaðaraðgerðir valdi því að hætt verði að manna neyðarbíl Landspítala – háskólasjúkrahúss með læknum. Þessi ráðstöfun yfirstjórnar LSH hefur vakið athygli fjölmiðla upp á síðkastið og í fréttum Ríkisútvarpsins í gær 16. janúar kom fram að í stað lækna verði neyðarbíllinn framvegis mannaður svokölluðum bráðatæknum, sem er stöðuheiti sem ég efast um að margir hér inni viti fyrir hvað stendur.

Ég spyr hvort það sé með vitund og vilja hæstv. heilbrigðisráðherra að teflt sé á tæpasta vað með sjúklinga í bráðri neyð og hvort hann telji nægilegt að neyðarbíllinn verði í bráðaútköllum í símasambandi við lækni. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær er viðtal við Bjarna Þór Eyvindsson deildarlækni en þar kemur fram að bráðatæknar hafi ekki leyfi til að gefa sjúklingi lyf, til þess þurfi samþykki læknis. Sömuleiðis geta bráðatæknar ekki framkallað svæfingu á staðnum og ekki barkaþrætt nema með ábyrgð læknis. Að sögn þeirra sem til þekkja eykur þetta hættuna á að sjúklingar, í mörgum tilfellum börn og mikið slasaðir einstaklingar í neyðarbíl LSH, geti orðið fyrir súrefnisskorti. Þar með aukast líkurnar á alvarlegum heilaskaða.

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að leita svara hjá hæstv. ráðherra við þeirri áleitnu spurningu hvort hann telji 30 millj. kr. sparnað á ári í bókhaldi Landspítala – háskólasjúkrahúss þess virði að auka þessa áhættu og einnig hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sjái ekki í hendi sér að þessi ráðstöfun geti þýtt aukin útgjöld á öðrum sviðum, t.d. í meðferð illa heilaskaðaðra einstaklinga.