135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

neyðarbíll án læknis.

[10:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefur sá fréttaflutningur sem hefur verið í gangi í tengslum við þessa breytingu, sem var kynnt fyrir löngu síðan og hefur verið lengi í undirbúningi, ekki farið fram hjá neinum. Það er þannig með okkar góðu heilbrigðisþjónustu að við treystum forsvarsmönnum sem eru að öllu leyti faglegir forsvarsmenn, læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, til að stýra þessum stofnunum.

Það er ábyrgðarhluti hjá hv. þingmanni að koma upp og fullyrða að þetta fólk tefli öryggi sjúklinga á tæpasta vað með umræddum breytingum. Ég bið fólk örlítið, virðulegi forseti, að hugsa þetta í ljósi þess að við erum með stjórnendur á viðkomandi stofnunum sem við treystum fyrir þeim og hafa sinnt sínum störfum afskaplega vel. Ég held að við ætlum þeim ekki að fara út í aðgerðir sem geti teflt öryggi sjúklinga á tæpasta vað og ef við treystum því ekki þá höfum við eftirlitsaðila, faglegan eftirlitsaðila, í þessu tilfelli landlækni, sem hefur tjáð sig opinberlega um að hann telji að svo sé alls ekki. Þvert á móti telur hann að um sé að ræða aukið öryggi með þessari breyttu skipan.

Enginn hefur áhuga á því að tefla öryggi sjúklinga á tæpasta vað, allra síst þeir sem starfa við þetta á Landspítalanum, sem er flaggskip heilbrigðisþjónustu okkar. Það er ekki aðeins af því að þeir hafa faglegan metnað heldur eru þeir líka með eftirlitskerfi sem hefur skoðað málið og samþykkt eins og allir ættu að vita.