135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

framkvæmdir á Reykjanesbraut.

[10:43]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir að taka þetta mál upp í fyrirspurn og er bæði ljúft og skylt að greina þingheimi frá stöðu mála. En eins og hv. þingmaður gat um snýst málið um tvöföldun á Reykjanesbraut, þ.e. við Fitjar.

Það gerðist rétt fyrir jól að aðalverktakinn Jarðvélar óskaði eftir að verða leystur frá þessu verki. Nú er unnið, og hefur verið unnið vel frá hendi Vegagerðarinnar, að úttekt á stöðu þessa verks með viðræðum við aðalverktakann og undirverktakann sem ég vona að ljúki öðrum hvorum megin við næstu helgi.

Eins og hv. þingmaður gat um getur skipt miklu máli hver niðurstaða viðræðnanna verður upp á tafir, hvort þær verða miklar eða litlar. En það á eftir að vinna fyrir um 550 millj. kr. í þessu verki, þ.e. að brúargerð, svolítið við burðarlag og malbik og við frágang.

Jafnframt því að viðræður eiga sér stað við verktakann þá hefur Vegagerðin samt sem áður reynt að vinna sér tíma með því að vinna að útboðsgögnum ef til þess kæmi að bjóða verkið út á ný. En viðræðurnar eru núna á viðkvæmu stigi. Allt er gert til að tafir verði sem minnstar og kannski ekki mikið hægt að segja meira um það. En hvað varðar umferðaröryggið, þ.e. merkingar og annað slíkt, þá tók Vegagerðin við því um leið og verktakinn skrifaði þetta bréf. Vegagerðin hefur séð um þetta en vegna bráðabirgðatenginga, steinkubba og annað sem er þarna í myrkri og snjó er mikilvægt að það takist sem fyrst að koma þessu aftur í gang. Niðurstaðan er því sú að vænta má næstu skrefa öðrum hvorum megin við næstu helgi.