135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

húsakostur fangelsa og lögreglunnar.

[10:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef áhuga á að spyrja um húsakost fangelsa og höfuðstöðvar lögreglunnar. Á Íslandi erum við heppin að því leyti til að hér eru fáir fangar á hverja 100 þúsund íbúa. Þó að menn vildu helst að hér væru engir fangar þá eru 40 fangar á hverja 100 þúsund íbúa hér á landi, þ.e. 120–130 fangar á hverjum tíma. Á Norðurlöndunum er 70 fangar á hverja 100 þúsund íbúa en í Bandaríkjunum 700. Ef sömu tölur giltu hér á landi væru hér 2.100 fangar á hverjum tíma en þeir eru talsvert færri og við eigum að hugsa um að aðbúnaður þeirra sé ásættanlegur.

Á síðustu fjárlögum var ákveðið að lækka fjárveitingar til fangelsisbygginga. Þær voru lækkaðar um 170 millj. kr. og eru einungis 8 millj. Hins vegar segir í fjárlögunum að hægt sé að selja land sem tilheyrir Litla-Hrauni og nota andvirðið til að byggja upp nýja heimsóknarálmu á Litla-Hrauni og meiri aðstöðu þar. Það stendur líka til að byggja nýtt fangelsi líklega á Hólmsheiði og þá yrði Hegningarhúsinu og Kópavogsfangelsinu lokað. Við höfum fengið athugasemdir erlendis frá varðandi aðbúnað í fangelsum hér þannig að þetta er brýnt verkefni og hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt að það sé alveg augljóst að árið 2009 verði aðstaðan ekki orðin ásættanleg.

Um síðustu áramót sagði hæstv. dómsmálaráðherra að næsta stórverkefni sé að finna stað fyrir nýja lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu. Ég tek undir með honum að þetta er brýnt verkefni vegna þess að núverandi aðstaða er ekki nógu góð. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvort stórverkefnið kemur á undan, uppbygging nýs fangelsis eða uppbygging höfuðstöðva lögreglunnar?