135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

húsakostur fangelsa og lögreglunnar.

[10:58]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað allt Reykjavíkurborg að kenna og nýja meiri hlutanum þar eins og við heyrum hjá sjálfstæðismönnum, en ég verð að segja að það kemur mér nokkuð mikið á óvart að heyra nú að sameina eigi þessar byggingar. Þær eru báðar mjög brýnar, nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar og nýtt fangelsi á Hólmsheiði.

Það er alveg ljóst að sveitarfélögin hafa tekist á um það hvar nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar eigi að vera og þar hafa Reykjavíkurborg, Kópavogsbær og Hafnarfjarðarbær sýnt mikinn áhuga. Miðað við þær nýju fréttir sem hér koma fram þá stefnir í mikla samkeppni á milli sveitarfélaganna um það hvar þetta nýja stóra verkefni á að rísa, nýtt stórt fangelsi og nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar. Það verður spennandi að sjá hvort pólitíkin mun spila þar sterkt inn í hvar þessu verður valinn staður.

En ég tel alveg augljóst að við erum allt of sein á okkur varðandi uppbyggingu í fangelsum og þó að takist að selja landið (Forseti hringir.) dugar það ekki upp í viðbyggingarnar á Litla-Hrauni sem eru fyrsta skrefið.