135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

komugjöld í heilsugæslunni.

[11:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Harðarson fer hér yfir mál sem er þekkt og snýr að hækkun á gjaldskrá. Hér er annars vegar um það að ræða að verið er að hækka gjaldskrá almennt og hins vegar er um ákveðna tilfærslu að ræða eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Sú tilfærsla felst í því að gjöld fyrir börn eru afnumin og ég heyri ekki annað en að hv. þingmaður sé sammála því. Ég tel rétt að leggja þetta þannig upp að fyrst og fremst sé um að ræða tilfærslu til þeirra sem borga fullt gjald, þeirra sem greiða hæsta gjaldið. Við höfum áfram þá uppbyggingu, og engin breyting verður á því, að lífeyrisþegar og öryrkjar greiða einungis helming af því sem þeir sem greiða fullt gjald gera. Í því felst ákveðin sérstaða, eftir því sem ég veit best, okkar Íslendinga miðað við það sem gerist og gengur í þeim löndum sem við berum okkur saman við og er ég þá sérstaklega að vísa til Norðurlandanna. Við erum hvað þetta varðar mjög vel samkeppnishæfir ef þannig má að orði komast ef við berum okkur saman við þau lönd.

Þeir sem greiða fullt komugjald greiða 1.000 kr. en lífeyris- og örorkuþegar greiða 500 kr. Ég held að flestir sem það skoða séu á því að ekki sé um að ræða háar greiðslur en auðvitað eru menn að greiða ákveðinn hluta af þeim kostnaði sem til fellur — en þó bara brot af þeim kostnaði sem er til staðar. Fyrst og fremst er um það að ræða að kostnaður er fluttur til þeirra sem við köllum fullgreiðendur, sem er allur almenningur (Forseti hringir.) í landinu.