135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:19]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Því kveð ég mér hljóðs í dag að ég vil eiga viðræður við hæstv. forsætisráðherra um stöðu og þróun efnahagsmála síðustu daga og vikur. Alþingi Íslendinga hlýtur að kalla eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í því mikla umróti sem átt hefur sér stað. Óveðursský hrannast upp í íslenskum efnahagsmálum. Sá himinn sem til skamms tíma var heiður er nú þungbúinn og dimmur.

Það er ljóst að kröpp lægð í banka- og peningamálum, svo ekki sé talað um verðfall hlutabréfanna hér og um hinn vestræna heim veldur því að allir eru á nálum. Það ríkir óvissa og bið. Óvissan nagar fjármálaheiminn í dag, verð á gulli er í hæstu hæðum. Lánsfé sem er súrefni fyrirtækjanna er af skornum skammti, dýrt og torfengið eins og fram kemur í dagblöðunum í morgun. Nú er mikilvægt að sterkustu aðilar samfélagsins taki á saman, allir fyrir einn og einn fyrir alla. Hér kunna fumlaus og ákveðin vinnubrögð ríkisvalds, aðilar vinnumarkaðar, peningamarkaðar og banka að skipta sköpum. Hagsmunir allra Íslendinga eru þeir í dag að takist að sigla lygnan sjó frá þessum vandræðum.

Ríkisstjórnin í samstarfi við Seðlabanka og atvinnulífið getur hér, ekki síður en í mörgum öðrum löndum, afstýrt efnahagslegu áfalli fólks og fyrirtækja með aðgerðum. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsætisráðherra að vera svo sinnulaus og hafa ekkert frumkvæði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Við framsóknarmenn höfum varað ríkisstjórnina við frá fyrsta degi og talið miklu skipta að draga úr verðbólgu og þenslu. Þar höfum við talað fyrir nýrri þjóðarsátt. Verðbólgan er ræningi sem tekur stærri og stærri skerf úr vösum launþega og fyrirtækja. Hversu lengi getur íslenskt hagkerfi borið það að vextir hér séu allt að 10% hærri en í samkeppnislöndum okkar? Ríkisstjórnin segir pass. Seðlabankinn beitir stýrivöxtum, handbremsa á hagkerfið, ríkisstjórnin þenur vagninn og hækkar fjárlög ríkisins um 20% milli ára, hellir olíu á verðbólgubálið. Þetta er mat sérfræðinga og hagfræðinga, ekki bara Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnin vísar verkalýðshreyfingunni frá sér, dregur hana fyrst á asnaeyrunum. Hvers á ASÍ að gjalda sem var eingöngu að ræða um kjarabætur fyrir þá lægst launuðu og verst settu? Ríkisstjórnin hafnaði langtímasamningum og í leiðinni þjóðarsátt. Þar sagði hún ekki bara pass heldur svei ykkur. Samfylkingin hefur brugðist ASÍ og svikið fyrirheit sín. Við ráðum ekki miklu í hagsveiflu heimsins en hollur er heima fenginn baggi og með skynsemi er hægt að draga úr og koma í veg fyrir það versta.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvað telur hann að íslenskt atvinnulíf standist lengi þessa ofurvexti og vaxtaokur? Hvað telur hann að skuldug heimili unga fólksins sætti sig lengi við þessa stöðu sem er allt önnur en á Norðurlöndunum? Langvarandi hátt vaxtastig hér í 15–20% meðan nágrannar búa við 5% kann á stuttum tíma að valda mörgum miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

Það er hátt atvinnustig, mikil vinna sem hjálpar skuldugu launafólki. Skuldir heimilanna nema nú þreföldum ráðstöfunartekjum heimilanna. Það er mikið áhyggjuefni. Það er skylda hæstv. forsætisráðherra að grípa til aðgerða, leita eftir samvinnu Seðlabanka og atvinnulífs við þessar aðstæður. Það mundi róa markaðinn og efla bjartsýni og trú á framtíðina. Það verður strax að draga úr vaxtaspennunni. Það gerist ekki með aðfinnslum og hrópum ráðherra að Seðlabankanum. Ríkisstjórnin getur lækkað vexti og það ber henni að gera. Eingöngu þannig getur hún komið í veg fyrir stór áföll, snúið þróuninni við þjóðinni til hagsbóta. Hún verður að skera niður ríkisútgjöld. Hún verður að fresta framkvæmdum tímabundið við núverandi aðstæður. Ríkisstjórnin getur ekki verið stikkfrí við núverandi aðstæður.

Nú kalla ég eftir ábyrgri hagstjórn. Að sofa á verðinum eins og ríkisstjórnin hefur gert er ábyrgðarlaust, hæstv. forsætisráðherra. Ég býð aðstoð og stuðning Framsóknarflokksins til að afstýra harkalegri lendingu í efnahagslífinu. Nú gildir að allir rói í eina átt.

Þegar mikið liggur við þurfum við Íslendingar að eiga eina þjóðarsál. Frumkvæði ríkisstjórnarinnar skiptir þar mjög miklu máli. Ég spyr eftir frumkvæði hennar og viðhorfum hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar hönd til þessara stóru mála.