135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:24]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er að mörgu leyti eðlilegt að hefja umræðu sem þessa, nú þegar þing er komið saman að nýju eftir jólaleyfi. Við afgreiddum fjárlög með 40 milljarða afgangi skömmu fyrir jól eða fyrir um það bil mánuði og sú niðurstaða bendir til þess og sýnir fram á hversu sterka stöðu ríkissjóður Íslands býr við og það skiptir mjög miklu máli við núverandi aðstæður. En vissulega hefur ýmislegt gerst á þeim mánuði sem liðinn er frá því að fjárlög voru afgreidd eins og hv. þingmaður drap á.

Fyrr í þessari viku var gefin út ný þjóðhagsspá af hálfu fjármálaráðuneytisins sem undirstrikar styrk og sveigjanleika íslenska hagkerfisins en vekur jafnframt athygli á þeirri óvissu sem nú er uppi. Hún er af mörgum orsökum og af margvíslegum toga en mesta óvissan hefur skapast vegna þeirra hræringa sem orðið hafa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hv. þingmaður drap reyndar lítillega á. Þannig háttar nefnilega til í hagkerfi okkar nú til dags að það er opið og verður þess vegna fyrir áhrifum utan í frá um leið og atburðir gerast á þeim vettvangi. Það sjáum við t.d. í verðbreytingum á olíu og í verðbreytingum á innfluttum matvælum. Hv. þingmaður vék að því að verð á gulli hefði aldrei verið hærra. Það er ekki eitt af því sem hefur mest áhrif á efnahagslíf okkar.

Ég vil segja um þessi mál að þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins bendir til þess að viðskiptahalli sé á mjög hraðri niðurleið og að meira jafnvægi sé að nást í þeim efnum og að verðbólga sé jafnframt á niðurleið ef ekki koma til einhverjir óvæntir sérstakir atburðir. Þetta hvort tveggja er mjög mikilvægt og auðvitað standa þau mál í nánu samhengi við þá kjarasamninga sem nú er verið að vinna að.

Hv. þingmaður sagði að ríkisstjórnin hefði hafnað samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Það er ekki rétt. Auðvitað höfum við ekki hafnað neinu slíku en sú hugmynd sem fram kom af hálfu verkalýðshreyfingar um skattkerfisbreytingar fannst okkur óraunhæf og við gátum ekki fallist á hana en við höfum hins vegar ítrekað sagt fyrr og nú í viðræðum við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar að ríkisstjórnin mun ekki skjóta sér undan ábyrgð þegar kemur að því að ljúka gerð kjarasamninga en meginábyrgð á þeim er að sjálfsögðu á herðum samningsaðilanna sjálfra. En kjarasamningar, meðan þeir eru opnir, setja auðvitað ákveðna óvissu í horfurnar og þess vegna er erfitt að spá um það með vissu hver þróunin verður nákvæmlega.

Ég vil leggja áherslu á það að við núverandi aðstæður og við það umrót sem verið hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er mjög mikilvægt að allir haldi ró sinni, bæði þingmenn og aðilar úti á vinnumarkaðnum og aðilar í viðskiptalífinu, sérstaklega í bankaheiminum. Þar hafa komið upp nýjar aðstæður, lánsfjáröflun er erfið miðað við það sem áður var og laust fé liggur ekki á lausu ef svo mætti segja. Þess vegna var ákvörðun Seðlabankans fyrr í vikunni um að breyta reglum um endurhverf verðbréfaviðskipti og auka veðhæfismöguleika skuldabréfa mjög mikilvæg og er áreiðanlega ein af ástæðum þess að einn af stóru bönkunum okkar samkvæmt fréttum í morgun hætti við að útvega sér stórt lán á alþjóðlegum mörkuðum, a.m.k. í bili.

Þess vegna er það rangt sem hv. þingmaður segir að það sé ekki verið að vinna að þessum málum og að ekki sé fylgst með þeim. Það er auðvitað gert af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu Seðlabankans og það er mjög náið samráð milli þessara aðila og sömuleiðis aðila á fjármagnsmarkaðnum og aðila vinnumarkaðarins. Ég fagna því sem hv. þingmaður sagði um vilja Framsóknarflokksins til að leggja gott til málanna og efast ekki um að þau orð eru mælt af fullum heilindum.

Hv. þingmaður vék að ábyrgri hagstjórn. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu kappkosta að standa að hagstjórninni með ábyrgum hætti. Það gerðum við í síðustu ríkisstjórn og það verður áfram gert í þessari ríkisstjórn.