135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég minnist þess að haustið 2005 talaði þáverandi seðlabankastjóri um jafnvægisleysi í stjórn efnahagsmála. Gagnrýnd var óábyrg stefna ríkisstjórnarinnar, m.a. í stóriðjumálum og skattamálum. Talað var um ógnarjafnvægi í efnahagsmálum árið 2005.

Verðbólgan hefur verið yfir þolmörkum hér undanfarin fjögur til fimm ár. Eina tæki Seðlabankans til að halda henni niðri er hækkun stýrivaxta sem hafa nú um langt skeið verið með því hæsta sem gerist í heiminum. Þetta gerðist áður en svokölluð niðursveifla hófst á erlendum hlutabréfamörkuðum sem hefur aðeins staðið í örfáa mánuði.

Það er því alrangt, menn stinga þá höfðinu í sandinn, að kenna erlendum aðilum um þá óvissu sem nú er í efnahagsmálum þjóðarinnar. Aðalvandamálið er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og stefna hennar eða réttara sagt stefnu- og andvaraleysi. Hún hefur keppst við að hygla forréttindahópum svo að bilið milli ríkra og fátækra hefur aldrei verið breiðara. Hún hefur fært skattbyrðina frá þeim efnameiri til þeirra tekjulægri. Hún hefur lækkað skatta á hátekjufólki í góðæri og þenslu. Hún hefur lækkað virðisaukaskatt sem virðist að litlu leyti hafa skilað sér til almennings. Samtímis hefur hún rekið hömlulausa stóriðjustefnu sem hleypt hefur af stað mikilli þenslu á vinnumarkaði. Þetta hefur hún gert þvert á varnaðarorð okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þvert á varnaðarorð sérfræðinga, bæði fyrrverandi og núverandi bankastjóra Seðlabankans. Enn boðar (Forseti hringir.) forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins skattalækkanir. (Forseti hringir.)

Við þurfum (Forseti hringir.) að standa vörð um velferðarkerfið og þjappa (Forseti hringir.) okkur saman um það en hafna einkavæðingaráformum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í heilbrigðismálum.