135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:39]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að ríkisfjármálin skipta miklu máli í hagstjórninni og það er rétt að gert er ráð fyrir því að útgjöld verði meiri á þessu ári en þau voru á síðasta ári. Það er ekki vegna þess að ríkiskerfið sé að þenjast út, þar er hækkunin nákvæmlega innan þess ramma sem hefur verið í gildi undanfarin ár. Hækkun er hins vegar vegna þess að tilfærsluútgjöld til tryggingakerfisins, eldri borgara, hafa hækkað vegna ákvarðana bæði fyrri og núverandi ríkisstjórnar og einnig vegna þess að við höfum ákveðið að auka í fjárfestingarnar þar sem verkefnum fer að ljúka og þá sérstaklega á Austurlandi. Það getur vel verið að ekki sé nægjanlega að gert í þeim efnum en það fer auðvitað eftir þróuninni næstu mánuði.

Eins og þróunin hefur verið síðustu mánuði var það hins vegar rétt af okkur að lækka þau útgjöld þegar við tókum ákvarðanir í desember á sama hátt og við minnkuðum umfang útgjaldanna á síðasta ári í fjárfestingunum. Það var hins vegar ein tegund af útgjöldum í þjóðarbúinu sem jókst á síðasta ári langt umfram það sem áætlað var, það voru fjárfestingar í íbúðarhúsnæði sem fóru úr 6% í 10% og er bein afleiðing þess að félagsmálaráðherra síðustu ríkisstjórnar hækkaði lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði. Það er kannski sú ákvörðun sem hefur haft mest áhrif (Gripið fram í.) á það að hagþróunin á síðasta ári var önnur en við ætluðum. (Gripið fram í.)

Við þurfum hins vegar að gæta okkar á því að vera ekki með þversagnir í málflutningi okkar, annars vegar tala um að fjárlögin séu að ausa olíu á eldinn og hins vegar að tala um að útgjaldatillögur sem komu frá ASÍ, því að það voru auðvitað útgjaldatillögur til ríkisins, hafi verið góðra gjalda verðar. Hvort tveggja hefur áhrif á þensluna og til sömu áttar. (Forseti hringir.) Gætum að okkur í þessu, bæði að því sem við segjum og gerum.