135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

staða og horfur í efnahagsmálum.

[11:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta voru nokkuð góð niðurlagsorð: Gætum að því sem við segjum og gerum. Það var fróðlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra gagnrýna eigin gjörðir í síðustu ríkisstjórn. Látum það liggja á milli hluta.

Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, fyrir að efna til þessarar umræðu sem á stöðugt að fara fram. Það hriktir óneitanlega í undirstöðum efnahags- og fjármálakerfisins hér á landi. Hversu alvarlegar þær sveiflur og dýfur koma til með að verða vitum við ekki, það er komið undir ýmsu.

Á hitt er að líta að þetta er ekki ný þróun. Við höfum búið við geigvænlegan viðskiptahalla um árabil og skuldir þjóðarbúsins hafa stóraukist, við erum orðin ein skuldugasta þjóð heimsins. Á sama tíma og því hefur undið fram höfum við hlustað á ræður ráðherra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, í þá veru sem við heyrðum hæstv. forsætisráðherra tala hér áðan.

Jú, það er svolítill órói í útlöndum. Við búum við opið hagkerfi, það er alveg rétt. En við búum ekki þar með sagt við kerfi sem á að vera án ábyrgðar. Nú ríður á að allir þeir sem hafa aðstöðu til að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á framvindu mála axli slíka ábyrgð. Það á við um stórfyrirtækin, það á við um fjárfestana, það á við um bankana sem nú hafa í hótunum við íslenskt samfélag og virðast gleyma því upp úr hvaða jarðvegi þeir eru sprottnir, hverjum þeir eiga velgengni sína að þakka. Að sjálfsögðu íslensku samfélagi.

Hér beinum við hins vegar sjónum að stjórnvöldum. Þau eiga að draga úr þenslu á stórþenslusvæðum. Það gera þau ekki. Þau eiga að gefa út afdráttarlausar yfirlýsingar varðandi stóriðjustefnuna, (Forseti hringir.) sem er höfuðvaldur að óförum okkar í efnahagsmálum á undanförnum árum. Afdráttarlausar (Forseti hringir.) yfirlýsingar frá hendi ríkisstjórnarinnar eru sjálfstæð og mikilvæg efnahagsráðstöfun í sjálfu sér.