135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:13]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp hefur ekkert með hernaðarhyggju að gera. Frumvarpið snýr að því að hægt sé að halda utan um þau verkefni sem tengjast aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu með sértækum hætti þannig m.a. að almenningi, og þingmönnum gefist kostur á að hafa lýðræðislegt eftirlit með því hverju við erum að sinna vegna aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu og hvaða verkefnum við erum að sinna vegna annarra öryggismála. Þetta er mjög mikilvægt fyrir lýðræðisþróunina í landinu.

Umræðan um það hvort við eigum að taka til endurmats almennt þá stefnu sem hér hefur verið við lýði síðan 1949, að Ísland sé aðili að Atlantshafsbandalaginu, hefur í sjálfu sér ekkert með þetta frumvarp að gera. Við erum aðilar og við þurfum að halda utan um þau verkefni með mjög sértækum hætti. Hv. þm. Ögmundi Jónassyni geta gefist öll heimsins færi á þessu þingi og næstu þingum til að taka þessa umræðu. Hún verður ekki til lykta leidd á einhverjum örskömmum tíma og ég er þeirrar skoðunar af því að heimurinn er að breytast og það sjáum við líka að þá sé Atlantshafsbandalagið auðvitað líka að breytast. Ég tel að við eigum fulla samleið með þeim ríkjum sem eru í Atlantshafsbandalaginu og mér segir svo hugur um að Vinstri grænir muni aldrei gera það að úrslitaatriði, t.d. í ríkisstjórnarsamstarfi, hvort við eigum að vera aðilar að þessu bandalagi eða ekki. Ég held að þetta sé svolítið, fyrirgefið að ég segi það, í nösunum á þingmanninum.