135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hverju ég á að svara þessu málefnalega innleggi frá hv. þingmanni um andlega tregðu og mótsagnir í málflutningi. Það væri þó málefnalegt innlegg ef hann léti fylgja með einhverjar skýringar á því í hverju mótsagnirnar felast.

Ég var að gera grein fyrir þeim breytingum sem ég teldi að hefðu orðið á stefnu Atlantshafsbandalagsins, á stefnu NATO á síðari hluta 10. áratugar síðustu aldar og á þeim árum sem undangengin eru. Ég var líka að reyna að færa rök fyrir því að aðild okkar að bandalaginu og þessi nána hernaðarsamvinna væri okkur varasöm og við þyrftum að taka þetta með inn í umræðu um stefnumótun Íslendinga í varnarmálum til frambúðar. Þetta er málefnaleg aðkoma sem er afgreidd með þessum hætti.

Hv. þingmaður segir síðan að með þessum lögum sé ekki verið að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Það er mergurinn málsins. Við vorum að krefjast þess að menn tækju sjálfan grundvöll stefnunnar til skoðunar og umræðu áður en við settum þessi mál inn í lagalegan og stofnanalegan ramma.

Hitt er svo annað mál, og ég tók það fram í upphafi, að það er vissulega verið að gera það og síður en svo nokkuð við það að athuga í sjálfu sér. Við getum tekist á um það með hvaða hætti heppilegast er að standa þannig að málum, hvar þessi stofnun eigi að vistast og undir hvaða ráðuneyti hún eigi að heyra. Það er umræða sem við komum til með að taka og ég er síður en svo að gagnrýna það, alls ekki.

Ég vil hins vegar í umræðu um þetta mál ræða pólitískt inntak frumvarpsins að öðru leyti sem lýtur að stefnu okkar og samskiptum við NATO sem er lögfest hér í þessu frumvarpi.