135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:34]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður auglýsti eftir að ég skýrði hvar mótsagnir væru að finna í málflutningi hans. Ég kalla það mótsagnir að leggjast gegn frumvarpinu á þeirri forsendu að verið sé að geirnegla okkur inn í hernaðarsamstarf þegar hann viðurkennir það síðan í andsvari að vissulega sé það rétt að einungis sé verið að lögfesta þá háttu sem hingað til hefur verið viðhöfð.

Það sem skiptir máli við þetta frumvarp er að það er ekki bara verið að lögfesta þá háttu sem hingað til hefur verið viðhöfð, heldur er líka verið að skapa stefnunni lýðræðislega umgjörð og afmarka hana. Það er með öðrum orðum verið að afmarka svigrúm stjórnvalda til aðgerða á sviði varnarmála sem aldrei hefur verið gert áður. Þá kemur maður aftur að þessu svolítið sérkennilega viðhorfi sem oft gætir hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem er það að betra sé ekkert en eitthvað.

Með öðrum orðum, hér er því spilað út að menn vilji að við göngum úr Atlantshafsbandalaginu og ef það er ekki í boði þá á frekar að gera ekki neitt heldur en að skapa lýðræðislega umgjörð um hvernig staðið er að varnarmálum og tryggja þar með lýðræðislega aðkomu, t.d. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að endurmati á framkvæmd varnarmála og aðgerðum stjórnvalda á því sviði. Þetta er afskaplega sérkennilegt viðhorf.

Það sem málið snýst um er hvort ekki sé eðlilegt og vitlegt að skapa lýðræðislegan ramma utan um þessi störf og tryggja þar með að við vitum nákvæmlega hvaða verkefni er verið að vinna á varnartengdum forsendum á vegum stjórnvalda og afmarka þau og skapa þeim lögmætisramma. Það hlýtur að vera ávinningur að því og það er satt að segja allt að því óskiljanlegt ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð sér ekki þann stóra ávinning.