135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[12:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist hv. þingmaður ekki hafa hlustað mjög vel á ræðu mína áðan. Ég tók það fram og tek það fram að nýju, að mér finnst mjög mikilvægt að hin stofnanalega umgjörð öryggismála sé skýr. Ég tek einnig fram að mér finnst mjög mikilvægt að þessi mál sæti eðlilegu, lýðræðislegu aðhaldi. Að því er vissulega komið í frumvarpinu og ég sagði í ræðu minni að þessa þætti mundum við skoða gaumgæfilega.

Ég vék að einstökum þáttum, t.d. ábyrgð á stefnumótun í öryggismálum, hvar hún ætti að hvíla og sagði að þetta væru þættir sem við þyrftum að taka til nánari umræðu. Ég gagnrýndi hins vegar ýmsa aðra efnisþætti þessa frumvarps, það sem ég tel vera lögbindingu, lögbindingu á hernaðarsamvinnunni við NATO, um aðkomu NATO-herja að íslensku landsvæði.

Við eigum að sjálfsögðu eftir að fjalla um alla þessa þætti miklu nánar, t.d. um andmælarétt sveitarfélaga og annarra aðila til heræfinga og annarra slíkra þátta. Þetta er margslungið mál sem þarf að taka á af tæknilegum forsendum, stofnanalegum en einnig þarf að ræða sjálfan grundvöll utanríkisstefnu okkar sem einnig er til umfjöllunar í þessu frumvarpi, að sjálfsögðu, og byggir á henni.