135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:17]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu í því máli sem hér er til umfjöllunar, frumvarpi til varnarmálalaga, og þær upplýsingar sem komu fram í ræðu hennar umfram það sem lesa má í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því.

Mig langar fyrst að greina örstutt frá því hvernig staðið er að undirbúningi og framlagningu mála af þessum toga. Hér er um stórt mál að ræða. Það hefur verið kallað tímamót og því var dreift í sölum Alþingis fyrir tveimur dögum. Það var unnið í utanríkisráðuneytinu undir forustu hæstv. utanríkisráðherra og hefur verið rætt í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna þannig að í þeim herbúðum hefur væntanlega gefist tóm til að fara allítarlega yfir efni frumvarpsins og spyrja spurninga sem hafa vaknað um einstaka þætti þess. Þetta á ekki við um stjórnarandstöðuna og þetta á ekki aðeins við í þessu máli. Þetta á við um nánast öll stjórnarfrumvörp, þau koma hér inn og eru tekin til umræðu nánast þegar skemmsti frestur er liðinn. Ég hlýt að beina því til hæstv. forseta, nú þegar mikið lof er borið á ný þingsköp og vandaðri vinnubrögð í þinginu, að þessu vinnulagi verði breytt. Vegna þess að hér er, eins og ég sagði, um stórt og mikilvægt mál að ræða og menn þurfa að gefa sér góðan tíma til að fara yfir efni þess enda þótt aðeins sé um að ræða 1. umr. Hugsanlega leita sér gagna, afla sér upplýsinga og spyrja spurninga sem menn vilja fá svör við þegar þeir taka þátt í 1. umr. Þetta á ekki bara við um þetta mál, eins og ég sagði, þetta á við um stjórnarfrumvörp almennt séð, hygg ég. En ég vil gjarnan nota tækifærið og koma þessu á framfæri, sérstaklega vegna þess að í þessu máli eru uppi stór álitamál sem væntanlega verða tekin til frekari umræðu í nefnd og við 2. umr. þegar þar að kemur en hefði verið ágætt að geta tekið upp hér líka.

Það má í rauninni nálgast þetta mál frá nokkrum sjónarhornum og það hefur reyndar komið fram nú þegar í umræðunni. Ég er þeirrar skoðunar, og vil láta það koma fram strax í upphafi, að það sé jákvætt að leggja fram frumvarp til varnarmálalaga og að skipa þeim málum sem þar er fjallað um í þann farveg sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. að taka þau verkefni sem Ratsjárstofnun hefur haft með höndum og önnur þau verkefni sem leiða af aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og skipa þeim með þeim hætti sem hér er lagt til. Í því felst auðvitað ekki að ég sé sáttur við eða sammála þeirri stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa haft uppi hvað varðar aðild að Atlantshafsbandalaginu. En það er mál sem við getum auðvitað líka tekið til umfjöllunar og væri eðlilegt að taka til umfjöllunar t.d. í tillögu til þingsályktunar um stefnu í varnarmálum sem flutt væri á Alþingi og fengi þar almenna pólitíska umfjöllun.

Mér sýnist á því sem hér er gert að skilið sé mjög rækilega á milli hernaðarmála og borgaralegra mála eins og hefur verið rakið bæði af hæstv. utanríkisráðherra og fleiri þingmönnum. Ég tel það skynsamlega niðurstöðu. Mér sýnist að hæstv. utanríkisráðherra hafi í raun unnið fullan sigur í því máli gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra vegna þess að við höfðum að sjálfsögðu orðið vör við skoðanaskipti milli stjórnarflokkanna og einstakra ráðherra og stjórnarliða í fjölmiðlum um þetta mál. Mér finnst jákvætt að þetta hafi orðið niðurstaðan.

Hér er talað um lagalegan eldvegg og það er kannski tímanna tákn að það orðalag skuli vera notað en ég er sáttur við það eins og það er sett hér fram. Í frumvarpinu er tekið fram, og það er meginforsenda, að Íslendingar séu herlaus þjóð og það sé ekki vilji til að breyta þeirri staðreynd. Það er líka tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir að Ísland byggi upp eigin herafla. Ég fagna þeirri áherslu sem kemur fram í þessu máli, en minni jafnframt á að það hefur lengi verið áhugamál sumra að minnsta kosti að koma upp íslenskum her og eru engin sérstök nöfn nefnd í því samhengi. Hér er tekinn af allur vafi um það.

Hér er í fyrsta sinn sett heildstæð löggjöf um varnarmálatengda starfsemi og ég vil segja fyrir mitt leyti, og það hefur komið fram hjá fleiri hv. alþingismönnum, að það er eðlilegt að Alþingi fjalli um þau mál. Þau eiga heima á borði löggjafans en hafa því miður allt of lengi verið lokuð inni í leynilegum samningum á milli Bandaríkjamanna og íslenskra ráðamanna og auðvitað væri æskilegt að sá plagsiður yrði nú aflagður.

Ég vil taka undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem tóku sérstaklega á stefnumótuninni hvað þetta mál varðar. Ég skil frumvarpið og einkum og sér í lagi 3. gr. þannig að ætlast sé til að ráðuneytið fari með stefnumótun í þessum málaflokki en ráðherrann er auðvitað handhafi framkvæmdarvaldsins og honum ber að sjá um framkvæmd löggjafar og stefnumótunar sem Alþingi samþykkir. Ég tel því óhjákvæmilegt að í meðförum nefndarinnar verði það rætt sérstaklega hvernig styrkja eigi aðkomu Alþingis að stefnumótuninni í þessu sambandi, ekki síst í ljósi orða hæstv. utanríkisráðherra um lýðræðislega aðkomu að þessum málaflokki sem skort hefði á til þessa. Ég er sammála því að tryggja þarf lýðræðislega aðkomu þingsins að þessu máli og ég tel að það væri best gert með sérstakri varnarmálastefnu sem lögð væri fyrir Alþingi og tekin pólitísk umræða um hana.

Mér sýnist samt sem áður að það geti orðið ágreiningur um ýmsa þætti því að hér eru auðvitað pólitískir hlutir líka inni. Það má segja að samningurinn við Bandaríkin sem hæstv. núverandi utanríkisráðherra fékk svo að segja í vöggugjöf þegar hún tók við embætti frá fyrri ríkisstjórn sé meira og minna settur hér í lög og um hann er eðlilega pólitískur ágreiningur. Ég vil nú segja hæstv. utanríkisráðherra að það er ekki eitthvað sem er bara í nösunum á fólki. Það er full alvara á bak við þá afstöðu sem við t.d. í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum markað okkur í utanríkismálum þar sem við leggjum áherslu á sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu, þar sem við teljum að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga og hafna aukinni vígvæðingu. Við höfum lagt áherslu á að Ísland eigi að vera án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur, og við höfum viljað friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði t.d. hver væri aðkoma hagsmunaaðila, hvort sem það eru sveitarfélög, landeigendur eða aðrir, almenningur í landinu, þegar kemur að heræfingum. Nú hafa mjög mörg sveitarfélög í landinu, sennilega langflest þeirra, lýst því yfir að þau séu kjarnorkuvopnalaus svæði. Hafa slíkar yfirlýsingar ekkert gildi þegar fest hefur verið í lög að heræfingar séu heimilaðar á landi, eða varnaræfingar eins og þær eru kallaðar hér? Hafa slíkar samþykktir ekkert gildi eða er það bara háð samþykki þeirra landeigenda eða sveitarfélaga sem slíkar æfingar eiga að fara fram á?

Það er mikilvægt að fá þetta upplýst vegna þess að það er lenska, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í heiminum, að þegar her er annars vegar þá er öllum almennum reglum og lögum í samfélaginu nánast ýtt til hliðar, þá gilda einhverjar allt aðrar reglur. Þetta finnst mér mikilvægt að fá upp á borðið.

Síðan væri full ástæða til að taka upp umræðuna um hernaðarhyggjuna, um þann leiðangur sem þjóðirnar sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu eru í og ekki síst Bandaríkin. Hér er t.d. talað um hluti eins og í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins en þar er sagt, með leyfi forseta:

„Hugtakið hættumat er ekki skilgreint sérstaklega í lagatextanum en með því er átt við mat á þeirri ógn sem Íslandi kann á hverjum tíma að stafa af óvinveittum öflum, hernaðarumsvifum eða alvarlegu hættuástandi.“

Ég velti því aðeins fyrir mér hvað átt er við með þessu. Er verið að tala þarna um annars konar hættu en hernaðarlega? Er verið að tala t.d. um umhverfisógnir? Er verið að tala um hryðjuverkaógnina? Eða hvað er átt við þarna? Reyndar er ég er þeirrar skoðunar að það sem helst kallar hættu yfir heimshluta okkar í dag sé einmitt hryðjuverkaógnin og að hún nærist ekki síst á þeim viðbrögðum og þeirri afstöðu sem forusturíkið innan Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkin, hefur tekið til þessa viðfangsefnis. Vegna þess að það er ekki hægt að vinna stríðið gegn hryðjuverkum með hefðbundnum stríðsrekstri, eins og um venjulegan hernað sé að ræða. Það sama á nefnilega við um ógnina af hryðjuverkum og kalda stríðið að þetta er ekki venjulegur hernaður eða stríð í þeim skilningi og það verður ekki unnið með vopnum. Það er allt annars konar viðfangsefni sem þarna er á ferðinni. Ég hefði gjarnan viljað kalla eftir ítarlegri umræðu um þau áherslumál.

Ég vil nefna hér nokkrar fleiri greinar og athugasemdir. Mér dettur t.d. í hug að nefna hvernig því er blandað saman í 10. gr. frumvarpsins, þ.e. starfsmönnum Varnarmálastofnunar sem gegna hernaðarlegum eða varnarmálatengdum störfum og borgaralegri starfsemi. Ég átta mig ekki nákvæmlega á hvernig það á að ganga, undir hvaða forræði það er og hvort borgaralegir starfsmenn sem koma til liðs við starfsmenn Varnarmálastofnunar við tilteknar aðstæður eru þá orðnir hernaðarlegir starfsmenn eða hvernig það er hugsað.

Ég er líka hugsi yfir 11. gr. um bann við verkföllum. Mér finnst að almennt eigi ekki að nálgast starfsemi þannig að leggja upp með það að almennir starfsmenn stofnana megi ekki fara í verkfall. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að þetta sé bundið í þessari stofnun en t.d. ekki á sjúkrastofnunum, svo dæmi sé tekið. Mér finnst eðlilegt að það eigi við um þann sem er í forustu fyrir þessari stofnun en ég tel að það sé engin sérstök ástæða til þess hvað varðar almenna starfsmenn.

Ég vil ítreka það sem ég hef þegar sagt um stefnumótunina. Mér finnst mikilvægt að unnið sé með þann þátt á vettvangi utanríkismálanefndar þegar frumvarpið kemur þangað til umfjöllunar.

Loks er rétt að ítreka það, af því talað hefur verið um nýja tíma og 21. öldina og allt í þeim dúr, að þátttaka Íslands í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin verður áfram, og það breytist ekkert með þessu frumvarpi, hornsteinninn í landvarnastefnu Íslands og um það geta verið, eins og ég hef þegar sagt, og eru skiptar skoðanir í samfélaginu. Og af því hæstv. utanríkisráðherra sagði að með nýrri öld og nýjum viðhorfum væri mikilvægt að leggja að baki þær deilur sem hafa klofið þjóðina í þessum málaflokki um áratugaskeið, þá held ég að meðan menn binda trúss sitt svo rækilega við Bandaríkin og þá hernaðarstefnu sem þar hefur verið rekin og er rekin í dag sé ekki líklegt að sú breiða almenna samstaða og sátt í samfélaginu sem þarf að vera á sviði utanríkis- og varnarmála takist. Ég tel að við þurfum að vera miklu sjálfstæðari í þeim málaflokki og reka miklu sjálfstæðari stefnu sem byggir á íslenskum hagsmunum, bæði varnarhagsmunum, hagsmunum auðlinda okkar, umhverfisins o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég hef reynt (Forseti hringir.) að reifa nokkur atriði sem mér hefur þótt skipta máli við yfirferð á þessu frumvarpi. Ég geri mér grein fyrir að það eru ákveðin atriði sem sjálfsagt verður ágreiningur um áfram en það eru líka atriði sem mikilvægt er að nefndin taki til umfjöllunar og reyni að gera bragarbót á eftir því sem efni standa til.