135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:38]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp utanríkisráðherra til varnarmálalaga. Ég fagna frumvarpinu og tek undir það sem komið hefur fram í máli margra, að hér er um viss tímamót að ræða í okkar sögu og enn eitt skrefið fram á við í ljósi breyttra aðstæðna í varnarmálum eftir brotthvarf Bandaríkjahers. Við höfum ekki áður haft heildstæða löggjöf um varnarmál en í ljósi breyttrar stöðu er slík löggjöf nú nauðsynleg, ekki síst til þess að setja ramma utan um þá starfsemi tengda varnarmálum sem við sjálf berum nú fulla ábyrgð á.

Ég vil endurtaka það sem ég hef áður sagt, m.a. í umræðum um utanríkismál fyrr í haust, að ég tel að öryggis- og varnarmálum Íslendinga sé mjög vel fyrir komið í þeirri mynd sem nú er. Okkur hefur á afar farsælan hátt tekist að bregðast við þeirri stöðu sem upp kom þegar Bandaríkjamenn ákváðu einhliða að draga herlið sitt til baka héðan þann 15. mars 2006.

Varnarsamningurinn frá 1951 og samkomulagið um varnarmál við Bandaríkjamenn frá því í október 2006, aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, grannríkjasamningarnir sem gerðir hafa verið um frekara samstarf í öryggismálum sem og samstarf okkar sem fer í hönd við NATO um loftrýmisgæsluna eru hornsteinar utanríkisstefnu okkar hvað öryggis- og varnarmál varðar. Frumvarpið staðfestir og styrkir þetta fyrirkomulag og ég lýsi ánægju minni með það. Ég er því augljóslega ósammála sumum viðhorfum hv. þingmanna úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, en það á svo sem ekki að koma á óvart.

Það skref sem nú er stigið með stofnun sérstakrar Varnarmálastofnunar er skynsamlegt og rökrétt framhald af þróun mála. Varnarmálastofnun mun m.a. yfirtaka rekstur íslenska ratsjárkerfisins sem Ratsjárstofnun hafði með höndum og verður sú stofnun jafnhliða lögð niður. Með frumvarpinu er m.a. verið að greina á milli borgaralegu og hernaðarlegu verkefnanna, setja lagalegan eldvegg eins og hæstv. utanríkisráðherra kallaði það. Þar er líka verið að greina á milli stefnumótunarhlutverks utanríkisráðuneytisins og daglegrar framkvæmdar sem Varnarmálastofnun mun hafa á sinni könnu. Sú aðgreining er að mínu mati mjög mikilvæg. Ábyrgð utanríkisráðherra á varnarmálunum er staðfest í stjórnsýslunni sem og fyrirsvar ráðherrans á málaflokknum gagnvart innlendum og erlendum samstarfsaðilum.

Ég tel það einnig mikilvægt atriði í frumvarpinu að betri forsendur skapast en áður fyrir öflugu eftirliti kjörinna fulltrúa okkar á þessu sviði, ekki síst innan utanríkismálanefndar Alþingis. Ég fagna sérstaklega þeirri áherslu sem þar kemur fram um upplýsingagjöf til utanríkismálanefndar. Það er mjög mikilvægt að verkefni og skyldur stjórnvalda hvað öryggis- og varnarmál snertir séu vel skilgreindar og skýrt afmarkaðar. Það er nauðsynlegt að skýr og afmörkuð verkaskipting sé í stjórnkerfinu á milli þeirra aðila sem sjá um öryggis- og almannavarnamál á borgaralegum vettvangi og þeirra sem fara með varnarmálin í hernaðarlegu samhengi.

Ég get tekið undir þau almennu sjónarmið sem fram hafa komið í ræðum hæstv. dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra fyrr í umræðunni hvað þetta varðar og sé ekki ástæðu til þess að fara ítarlegar yfir þau atriði. Ég vil frekar nota tíma minn hér til að fara aðeins í einstök atriði frumvarpsins sem ég tel rétt að vekja athygli á og eftir atvikum leita skýringa á frá hæstv. ráðherra.

Mig langar þó almennt að segja, áður en lengra er haldið, að þó svo að ég styðji það að komið verði á fót sérstakri stofnun, Varnarmálastofnun, til þess að fara með þessi verkefni verð ég jafnframt að hafa uppi ákveðin varnaðarorð. Ég hef ekki litið á það sem mitt helsta verkefni í stjórnmálum að setja á fót nýjar ríkisstofnanir, heldur þvert á móti. Þess vegna er kannski ákveðin huggun í því að önnur stofnun, Ratsjárstofnun, mun verða lögð niður á móti þessari.

En ég vil hins vegar hvetja menn til ráðdeildar og hagræðingar við uppbyggingu hinnar nýju stofnunar og að þess verði gætt í hvívetna að gagnrýninna spurninga verði spurt um þau verkefni sem þar verða leyst af hendi. Ég tel engan vafa leika á því að við getum náð umtalsverðri hagræðingu í rekstri ratsjárkerfisins og að okkur beri hreinlega skylda til þess að leita allra leiða til að gera það. Við eigum að horfa til okkar þarfa í dag en ekki horfa í baksýnisspegilinn, ekki horfa til þess hvernig hlutirnir hafa verið gerðir hingað til. Ég tel það mikilvægt atriði sem ég vil ítreka hér.

Ríkisstofnanir, eins og við þekkjum, hafa tilhneigingu til þess að bólgna út og viða að sér nýjum oft og tíðum mikilvægum verkefnum. Þessi málaflokkur er þess eðlis að hann er mjög sérhæfður og flókinn og eflaust geta metnaðarfullir stjórnendur sannfært menn um nauðsyn þess að taka yfir alls kyns verkefni. Ég hvet því til gagnrýninnar hugsunar á þessu sviði. Utanríkisráðuneytið, sem samkvæmt frumvarpinu fer með stefnumótunarhlutverkið, þarf að sinna því aðhaldi. Mér þætti líka eðlilegt samfara því að Varnarmálastofnun verður sett á fót að sýnt verði fram á fækkun starfsmanna í ráðuneytinu, á varnarmálaskrifstofu þess, við þessa breyttu verkaskiptingu þegar framkvæmdahlið varnarmálanna er færð út til Varnarmálastofnunar.

Ég tel einnig mikilvægt að þess verði gætt að nýta þær stofnanir, þann mannskap og þekkingu sem fyrir er varðandi þessi mál innan annarra ráðuneyta og stofnana ríkisins til þess að koma í veg fyrir tvíverknað og sóun opinberra fjármuna. Þá á ég við stofnanir eins og Flugstoðir, ríkislögreglustjóra, Almannavarnir ríkisins og fleiri. Það er mikilvægt að tryggja að upplýsingaflæðið verði gott og að samstarf allra aðila verði tryggt. Ég fagna því sérstaklega orðum hæstv. utanríkisráðherra, þar sem hún tók sérstaklega fram að ekkert komi í veg fyrir samstarf innlendra stofnana á þessu sviði.

Virðulegi forseti. Ég mun nú fjalla aðeins um einstakar greinar frumvarpsins og leita svara hjá hæstv. ráðherra varðandi nokkur atriði eftir því sem hún getur komið því við hér í þessari umræðu eða eftir atvikum í utanríkismálanefnd.

Ég vil fyrst nefna að ég staldraði við ákvæði 21. gr. frumvarpsins sem fjallar um skatta og tollaundanþágur. Mér sýnist þarna verið að setja í lög ýmsar undanþágur sem eru nú þegar tilteknar í öðrum lögum. Skattfrelsi Bandaríkjahers er t.d. tiltekið í varnarsamningnum frá 1951 og í greinargerðinni er vísað til þess að aðrir þjóðréttaraðilar fái sams konar undanþágur samkvæmt lögum nr. 98 frá 1992.

Ákvæði annarra laga og þjóðréttarsamninga ættu því að mínu mati að nægja til að veita það skattfrelsi sem eðlilegt er talið að sé til staðar. Spurning mín er þá sú hvort nauðsynlegt sé að taka þetta sérstaklega fram þarna líka fyrst um þetta gilda nú þegar önnur lög. Ég mundi telja að væri viljinn sá að árétta þær undanþágur sem í gildi eru hefðu 2. og 3. mgr. 21. gr. nægt. 1. mgr. opnar á það að undanþágur geti náð til þeirra mannvirkja íslenska ríkisins sem eru á svæðinu til notkunar undir hvaða starfsemi sem er. Með öðrum orðum: Væri 21. gr. felld brott væri lagalegt inntak 2. og 3. mgr. áfram í fullu gildi.

Einnig er í greinargerð frumvarpsins þar sem fjallað er um 21. gr. talað um að réttaráhrif svokallaðrar tilvísunaraðferðar laga nr. 98 frá 1992 virðast ekki hafa verið kynnt nægjanlega innan íslenska stjórnsýslukerfisins og því sé verið að árétta þarna skatta- og tollaundanþágur. Ég mundi vilja fá nánari skýringar á þessum orðum því eftir því sem ég hef aflað mér upplýsinga um er þessari aðferð mikið beitt í frumvarpasmíð og engin sérstök vandkvæði hafa verið um beitingu hennar.

Ég vil næst víkja máli mínu að IV. kafla frumvarpsins sem fjallar um starfsmannamál. Í 8. gr. er fjallað um að forstjóra stofnunar sé m.a. gert að skilyrði að hann skuli hafa háskólamenntun. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði reyndar líka athugasemd við þetta en af öðrum toga en ég ætla mér að gera hér. Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við þessa kröfu. En ég mundi vilja hnykkja á því sem ég tel að sé væntanlega markmiðið með þessu skilyrði. Það er verið að krefjast þess að hlutaðeigandi hafi háskólapróf, ekki að hann hafi kannski setið einhverja kúrsa í háskólanum. Því teldi ég réttara að greinin orðaðist á þann veg að forstjóri skuli hafa lokið háskólaprófi. Þetta gerir ákvæðið skýrara og ég held að það sé meira í samræmi við það sem gerist í ríkiskerfinu.

Annað varðandi starfsmannamálin. Þar er í 10. gr., eins og hefur komið fram, fjallað um heimildir til tímabundinna ráðninga til Varnarmálastofnunar. Þar eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar sérstaklega tilteknir og þeim veitt sérstök heimild til þess að færast á milli ráðuneytisins og stofnunarinnar. Ég átta mig á því að eðli málsins samkvæmt mun utanríkisráðuneytið eiga í mestum samskiptum við stofnunina og að reynsla og þekking starfsmanna þess mun eflaust nýtast vel á báða bóga. Mér finnst hins vegar óþarfi að vera með sérstakt heimildarákvæði fyrir starfsmenn þessa eina ráðuneytis og tel eðlilegra að það yrði útvíkkað til Stjórnarráðsins alls eða jafnvel til ríkiskerfisins ef það gæti orðið til þess að nýta þekkingu sem fyrir er í kerfinu í þágu þessa málaflokks, auðvitað að uppfylltum þeim kröfum um öryggisvottun sem gerðar eru til starfsmanna stofnunarinnar.

Þess má geta að um nokkurt skeið hefur verið í gangi tilraunaverkefni innan Stjórnarráðsins um svokölluð tímabundin vistaskipti, þar sem starfsmönnum nokkurra tiltekinna ráðuneyta hefur gefist kostur á að færa sig tímabundið á milli ráðuneyta. Það verkefni hefur gefið afar góða raun og stendur reyndar til að útvíkka það frekar á næstunni þannig að það taki til Stjórnarráðsins alls. Þess vegna þætti mér snyrtilegra að þarna yrði gengið í sömu átt.

Virðulegi forseti. Í 16. gr. frumvarpsins er fjallað um rekstrarkostnað við starfrækslu Varnarmálastofnunar. Þar segir m.a. með leyfi forseta:

„Varnarmálastofnun er heimilt, að virtum öryggisreglum og forgangsrétti Atlantshafsbandalagsins, að veita gegn gjaldi samningsbundin afnot af mannvirkjum og búnaði bandalagsins sem stofnunin hefur umsjón með á grundvelli gistiríkis- og notendaríkisskuldbindinga Íslands. Tekjur vegna afnotanna renna til Varnarmálastofnunar sem ráðstafar þeim til reksturs og viðhalds þeirra mannvirkja og búnaðar bandalagsins sem stofnunin annast.“

Nú geri ég ekki ágreining um að stofnunin hafi heimildir til að afla sér tekna. En mér leikur forvitni á að vita hvernig þetta er hugsað. Hverjum á að selja afnot af mannvirkjum og búnaði? Ég er einfaldlega að hugsa þetta út frá spurningunni um hlutverk ríkisins. Í þessu felst vonandi ekki það að ríkið sé að fara að leigja út gistirými í samkeppni við einkaaðila. Ég óska eftir nánari skýringum á þessu atriði.

Frú forseti. Ég ætla ekki að sinni að gera frekari athugasemdir við frumvarpið. Ég hef tækifæri til þess að vinna að því nánar í utanríkismálanefnd þar sem ég á sæti. Þar verða án efa rædd nokkur lagatæknileg atriði, t.d. um það hvort allar þær skilgreiningar sem nefndar eru í 5. gr. frumvarpsins eigi heima í lagatextanum sjálfum eða hvort betur færi á því að þær væru annars staðar. En þetta er spurning sem við ræðum væntanlega í nefndinni.

Ég vil ljúka máli mínu með því að lýsa stuðningi mínum við það fyrirkomulag sem þarna er boðað. Ég hvet okkur til að nýta þetta tækifæri til þess að koma þessum málum varanlega í sem allra best horf.