135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hérna er verið að ræða við 1. umr. frumvarp til varnarmálalaga sem hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir. Ég vísa til þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa talað í þessari umræðu, hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar, Árna Þórs Sigurðssonar og Steinunnar Þóru Árnadóttur sem flutti ágæta ræðu um ákvarðanir sveitarfélaga um að banna meðferð eða vörslu eða geymslu kjarnorkuvopna eða tækja til að bera kjarnorkuvopn á sínu landsvæði. Það er þáttur sem ekkert er vikið að í þessu frumvarpi né heldur varð ég var við í framsögu hæstv. utanríkisráðherra við hvað þessar varnaraðgerðir eða tiltækar varnaraðgerðir af hálfu Íslendinga ættu að takmarka sig. Er það eingöngu við hermenn og tæki og tól, flugvélar sem þeim tengjast eða er líka gert ráð fyrir því að Ísland geti orðið svokallað gistiríki — þetta er orð sem notað er í frumvarpinu og mér líkar nú ekki. Ég kem að því seinna — gistiríki fyrir kjarnorkuvopn. Ég vil fá afdráttarlaus svör frá hæstv. utanríkisráðherra um það hvort með beinum eða óbeinum hætti felist í frumvarpinu skuldbindingar eða vilyrði að meintu ráði eða gáleysi fyrir því að geyma hér eða verja kjarnorkuvopn, tæki eða búnað til að geyma slíkt eða önnur gereyðingarvopn, sýklavopn eða annað því líkt sem ríki sem þó telja sig hafa verið búin að skrifa undir annað hafa því miður beitt í hernaði. Mér finnst þetta skipta máli og vil fá það afdráttarlaust fram hvort hér geti verið heimilað að heræfingar fari fram með tækjum og tólum sem tengjast kjarnorkuvopnum.

Eftir því sem mér hefur skilist er röksemdafærslan fyrir stofnun Varnarmálastofnunar fyrst og fremst varnarskyn, hana á að stofna í varnarskyni, í varnarskyni fyrir Ísland fyrst og fremst, ekki í varnarskyni eða til þess vera skjöldur fyrir hugsanlegar árásir á Bandaríkin eða önnur ríki enda væri lítill tilgangur í því. Rökin á sínum tíma fyrir hersetu Bandaríkjamanna hér voru ekki endilega þau að verja ætti Ísland heldur átti að dreifa áhættunni og bregða upp skildi fyrir hugsanlegri árás á Bandaríkin eins og þingmenn vita. Nú er verið að stofna hér nýja stofnun. Bandaríski herinn er farinn sem betur fer. Hann fór sjálfur þrátt fyrir þrábeiðni íslenskra stjórnvalda um að vera kyrr. Hann fór sjálfur vegna þess að hann taldi ekki vera þá hættu yfirvofandi sem réttlæti lengur hersetu hér á landi.

Nú kom hæstv. utanríkisráðherra inn á það að með þessari nýju stofnun og samningum eða vilyrðum í kringum þetta allt væri Ísland að taka að sér hlutverk sem bandaríski herinn hafði hér á landi með beinum eða óbeinum hætti í þágu bæði Bandaríkjanna og NATO. Þegar við hugsum til þess að yfirlýst þörfin fyrir hersetuna hér á sínum tíma af hálfu Bandaríkjamanna var að vera eins konar skjöldur fyrir hugsanlega árás á Bandaríkin þá á ég bágt með að sjá tilgang í því að við séum að endurreisa her og hervarnir til að þjóna því sama hlutverki áfram.

Ég vil taka fram til viðbótar, frú forseti, að þegar íslenska lýðveldið var stofnað þá var lögð áhersla á hlutleysi þess og að það tæki ekki þátt í eða skipaði sér í raðir hernaðarbandalaga. Erlendur her gekk hér á land árið 1940 og síðan aftur 1951. Fyrst var Ísland hreinlega hersetið og þegar Bandaríkjaher kom hér inn var mikið um það deilt en þeir sem stóðu að þeirri samþykkt að taka á móti bandaríska hernum þá lýstu því yfir að Ísland skyldi vera herlaust land og að það væri í sjálfu sér áfram herlaust vegna þess að Ísland væri ekki að taka á sig eða fara að setja hér upp her og að erlendur her ætti alls ekki að vera hér á friðartímum, þ.e. að Ísland ætti að vera fullkomlega herlaust land á friðartímum. Þessi vitund held ég að sé greypt í íslenska þjóðarsál, þ.e. að Ísland sé friðelskandi land og eigi ekki að vera með her eða taka þátt í hernaðarbandalögum, vera með her og það á friðartímum. Ég held að hún sé svo sterk að þau áform sem hér eru uppi um stofnun sérstakrar varnarmálastofnunar sem á að hafa það hlutverk að standa að hervörnum, standa að heræfingum á íslenskri grundu, séu íslenskri þjóðarsál mjög andstæð. Ég segi fyrir mig að ég er andvígur þeirri grunnhugsun sem þarna er á ferðinni um að ástæða sé til þess að reka hér hernaðarstofnun hvort heldur er á friðar- eða ófriðartímum því að með því erum við annars að draga athygli að því að við séum þátttakendur í hernaðarbandalögum. Við ættum miklu frekar að segja okkur úr slíkum bandalögum og beita okkur fyrir stofnun — og taka þátt í öflugu friðarstarfi og samstarfi þjóða um friðaraðgerðir. Grunnurinn á bak við þessar hugmyndir eða áform er held ég algerlega andvígur íslenskri þjóðarsál. Það er algerlega rangt að ætla að innleiða þessa afstöðu inn í íslenska þjóðarsál að hér skuli rekin hernaðarstofnun sem standi að og kosti heræfingar á íslenskri grund. Við létum þetta yfir okkur ganga með erlendan her en litum alltaf á það ástand sem tímabundið, að við værum hersetin, að hér skyldi ekki vera her á friðartímum.

Þess vegna geri ég athugasemdir við orðaskýringar og skilgreiningar og velti því fyrir mér hvaðan þær séu komnar og hver hafi annast þýðingar eða tilurð þeirra. Það stendur á blaðsíðu 2 í frumvarpinu um skilgreiningar, með leyfi forseta:

„Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:“

Svo segir í 3. tölulið, með leyfi forseta:

„3. Gistiríki: Ríki sem á grundvelli samnings:

a. tekur á móti liðsafla og búnaði á vegum Atlantshafsbandalagsins eða annarra ríkja sem koma að aðgerðum á yfirráðasvæði þess eða ferðast í gegnum það;“

Svo segir í 4. tölulið, með leyfi forseta:

„Gistiríkisstuðningur ...“

Mín máltilfinning fyrir því hvað sé gisting og gestrisni segir að það sé ansi langt gengið þegar farið er að tala um gestrisni og gistingu í hugtakinu fyrir því að hýsa hér og kosta erlendan her. Ég vil hreinlega segja það um mína máltilfinningu fyrir gestrisni hjá íslensku þjóðinni. Við höfum státað af mikilli gestrisni. En að hægt sé að heimfæra það upp á að hýsa hér og kosta og standa straum að æfingum erlendra herja undir hugtakinu gisting og gestrisni þá er mér hreinlega misboðið hvað það varðar, frú forseti. Ég bið nefndina að endurskoða þær skilgreiningar sem hér eru notaðar, hugtakaskilgreiningar um gistingar. Reyndar er það svo að ef maður kaupir sér gistingu á hóteli þá þarf maður yfirleitt að borga fyrir hana. Er ekki svo? Hér í hugtakanotkuninni felst það að gisting sé eitthvað sem gesturinn fær ókeypis og þá er væntanlega átt við þessar erlendu herþotur og þá erlendu hermenn sem hér eiga að fá að æfa sig og vera hluti af því sem menn kalla landvarnir Íslands. Mér finnst það vera misnotkun á því hugtaki.

Ég vil síðan aðeins víkja að því sama og svipuðu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kom að varðandi umsögn fjármálaráðuneytisins. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann bendir á mjög misvísandi og ónákvæmar og gildishlaðnar yfirlýsingar eða orðalag í umsögn fjármálaráðuneytisins sem er í sjálfu sér alvarlegt því að umsögn fjármálaráðuneytisins er einn af veigamiklum þáttum þegar við metum mikilvægi frumvarpa, forgangsröðun verkefna á grundvelli kostnaðar og svo framvegis. Þá skiptir máli að þar sé rétt og vel unnið.

Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á stendur í umsögn fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir að stofnunin muni eiga neinar eignir.“

Þá veltir maður fyrir sér hvað sé átt við. Er þetta þá bara stofnun sem annast ráðningar og laun fólks? Það liggur við að maður spyrji: Á hún ekki einu sinni að eiga skrifstofubúnað? Ég vil gjarnan heyra nánari skilgreiningar, þ.e. ef hæstv. utanríkisráðherra veit nánari skilgreiningar á því við hvað sé átt með eignum í þessu því seinna í umsögninni kemur aftur á móti — og ég tek aftur undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals — að þá er þar verið að tíunda kostnaðinn við þessi lög, við framkvæmd þeirra, við stofnun þessarar Varnarmálastofnunar. Fyrst er búið að segja að það séu ekki neinar eignir og síðan segir, með leyfi forseta:

„Undanskilinn í kostnaðaráætluninni er hins vegar stofnkostnaður vegna yfirfærslna eigna Bandaríkjamanna til stofnunarinnar sem er u.þ.b. 360 millj. kr.“

Ég spyr: Hvaða eignir er þarna verið að tala um? Það er hvergi minnst á það eða ég hef ekki séð það í þessu frumvarpi hvaða eignir þarna er verið að tala um að færist yfir. Þó ég lýsi yfir því að ég sé sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal í þessu máli þá vil ég aftur ítreka að það skiptir máli að umsögn fjármálaráðuneytisins varðandi svona frumvarp sé rétt og vandlega unnin.

Þarna er líka vakin athygli á því að kostnaður við þetta sé áætlaður um 1 milljarður og 350 millj. kr á ári. Við fórum í gegnum þetta í umræðunni um fjárlögin og aftur þegar við erum að ráðstafa fé ríkissjóðs þá erum við líka að forgangsraða. Liggur mesta hættan erlendis frá í einhverri innrás sem við þurfum að stunda heræfingar gegn? Að mínu mati er miklu nauðsynlegra og eðlilegra að þessum tæpu 1,5 milljörðum kr. verði varið til eflingar almennri löggæslu í landinu til að hindra útbreiðslu og innflutning fíkniefna. Við heyrum ákall frá löggæslunni um allt land um fjársvelti. Ég er viss um, ef við hugsum um öryggi borgaranna, (Forseti hringir.) að þá væri þessum fjármunum miklu betur varið til þess (Forseti hringir.) að efla og styrkja almenna löggæslu og forvarnir í landinu, frú forseti.