135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:18]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu virðist vera í ágætisfarvegi miðað við breyttar aðstæður þótt ástæða sé til að hvetja til þess að alltaf njóti friðurinn vafans en ekki ófriðurinn.

Það skaut hins vegar svolítið skökku við að heyra hv. þm. Jón Bjarnason hafa allt á hornum sér í framgangi málsins en hann lýsti ákveðinni andúð á hernaðartilþrifum. Það er sérkennilegt vegna þess að hv. þingmaður er löngu þekktur af því að vera sjálfur vígafim herfylking og þá af stærri gráðunni í framgangi sínum og atferli til að mynda í ræðustól á hv. Alþingi.

Þess vegna er það sérstætt heyra hann fara hringinn í kringum sjálfan sig í þessum efnum því stundum minnir hv. þingmaður, þessi mæti þingmaður, á prússneskar sveitir sem storma með miklum takti og jafnvel Mongólíusveitirnar sem fara létt um grundir. Þannig hefur fas hv. þingmanns verið og hann ætti því hafa skilning á ákveðnum þáttum í þessu efni sem hann sleppir, því auðvitað er hv. þm. Jón Bjarnason einn af sérstökum stormsveitum á Íslandi í framgangi mála og það er virðingarvert út af fyrir sig.