135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:22]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þessi ræða hv. þm. Jóns Bjarnasonar athyglisverð fyrir þær sakir að hún afhjúpaði vel rökþrotið í þeim málflutningi sem hann og sumir þingmenn Vinstri grænna hafa haft í frammi, ekki allir þó.

Hér er klifað á orðum eins og hervæðingu og hermálastofnun þó að aðalumræðan fjalli um að einungis standi til að lögleiða borgaraleg verkefni á sviði varnarmála og beinlínis banna með lögum verkefni hernaðarlegs eðlis, þannig að af Íslands hálfu verði ekki unnið að hernaðarlegum verkefnum.

Hitt sem vekur mér alltaf jafnmikla athygli þegar ég heyri það úr munni hv. þingmanna Vinstri grænna, er sú staðhæfing að fyrst Bandaríkjamenn ákváðu að þeir vildu ekki út frá sínum hagsmunum hafa varnir á Íslandi eða viðbúnað á Íslandi, þá sé það fráleitt að Íslendingar hafi á því sjálfstæða skoðun. Mér finnst þetta alltaf svo athyglisvert því ég hef hingað til trúað því að þingmenn Vinstri grænna væru skoðanabræður mínir í því að efast nokkuð um óskeikulleika George W. Bush.

En það er svo merkilegt að þegar þingmenn Vinstri grænna eru annars vegar og það kemur að því mati George W. Bush hvort hann vilji halda herliði á Íslandi út frá sínum hagsmunum, þá virðist það mat engu endurmati sæta í hugum vinstri grænna. Þeir virðast tilbúnir að sitja og standa eins og stórveldishagsmunir Bandaríkjanna krefjast þegar kemur að mati Bandaríkjamanna á því hvort þeir telji sér hag í því að halda varnarliði og viðbúnaði á Íslandi eða ekki.

Það sem þetta mál snýst um og þær breytingar sem unnið er að núna er að Íslendingar marki sína eigin varnarmálastefnu út frá eigin forsendum en uni ekki mati Bandaríkjamanna á varnarhagsmunum Íslands og þörfum Íslands og sitji ekki og standi sýknt og heilagt eins og Bandaríkjamenn óska. Það eru þeir nýju tímar sem þingmaðurinn þarf að átta sig á að við erum að reyna að koma á hér á Íslandi. (Gripið fram í.)