135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:55]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætlaði að fara í andsvar og taldi mig biðja um orðið meðan hæstv. ráðherra var enn í ræðustólnum. Hún var kannski búin að segja síðasta orðið. Ég ætla ekki að fullyrða um það. En þetta verður ekki löng ræða, frú forseti. Ég get lofað því að hún verður í andsvarsstíl.

Ég ætlaði að spyrja um atriði sem ekki hefur komið fram í umræðunni. Gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. apríl 2008, að þá taki þessi stofnun til starfa og Ratsjárstofnun verði lögð niður frá sama tíma. Í bráðabirgðaákvæði er hins vegar gert ráð fyrir því að forstjóri stofnunarinnar verði skipaður frá 1. febrúar 2008, en þangað til eru ekki nema 12 eða 14 dagar, eða þar um bil. En þessu frumvarpi var dreift fyrir tveimur dögum síðan eins og ég vakti athygli á í upphafi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, þar sem bersýnilegt er að gert er ráð fyrir því að þetta frumvarp verði afgreitt fyrir næstu mánaðamót, að öðrum kosti verður væntanlega ekki skipaður forstjóri Varnarmálastofnunar frá 1. febrúar. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra hvernig hún hefur hugsað sér þetta.