135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:57]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér var nokkur vandi á höndum þar sem ég var búin að tala tvisvar við þessa umræðu og á ekki annan kost en að fara í andsvar við hv. þingmann þegar hann varpar fram þessari spurningu um gildistökuákvæðið.

Það er rétt hjá þingmanninum, að þetta er nokkuð knappur tími. Það er gert ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. apríl 2008. Hugmyndin var sú að ráða forstjóra tveimur mánuðum fyrr til þess að undirbúa yfirtöku þessara verkefna því að það verður að gerast snurðulaust þennan dag, 1. apríl. Tíminn er naumur og ég geri ráð fyrir því að við verðum að gera breytingu á þessu, að það geti ekki gerst 1. febrúar eins og þarna er gert ráð fyrir. Við verðum þá að undirbúa þessa yfirtöku verkefna með öðrum hætti.

Þetta hefði kannski átt að breytast og er til marks um að það er svolítið síðan að frumvarpið var samið. Þessi grein frumvarpsins hefði þess vegna átt að breytast áður en það var lagt fram fyrir þingið. En stundum sést yfir svona smáatriði.