135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[15:59]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að fordæma mannréttindabrot og hvetja bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum í Guantanamo á Kúbu. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi fordæmir ólöglega og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu og felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að þeim verði lokað.“

Þessi tillaga er svipuð og flutt var á fyrra ári en þó skal ítrekað að Íslandsdeild Amnesty International hvatti í haust þingmenn til að láta í sér heyra vegna mannréttindabrota við Guantanamo og er þess einnig getið hér í greinargerðinni.

Þann 11. janúar síðastliðinn voru liðin nákvæmlega sex ár frá því að fyrstu fangarnir sem handteknir voru í tengslum við árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 og stríðsátökin í Afganistan voru fluttir í hið illræmda fangelsi í herstöð Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu. Á þeim tímamótum hafa á sjöunda hundrað fangar af u.þ.b. 40 þjóðernum, meira að segja allt niður í 13 ára börn, verið þar í haldi grunaðir um að vera annaðhvort hermenn talibana eða liðsmenn al Kaída samtakanna. Langflestir fanganna hafa verið teknir höndum af Bandaríkjaher eða af Norðurbandalaginu í Afganistan en sumir í Pakistan, Gambíu og jafnvel í Bosníu. Yfirlýst markmið Bandaríkjastjórnar með því að vista þessa „óvini“ sína sem þeir kalla í Guantanamo á Kúbu er einmitt að geta þar yfirheyrt meinta hryðjuverkamenn eða hermenn með hugsanleg tengsl við alþjóðleg samtök sem ógni Bandaríkjamönnum á landsvæði sem væri utan við lög og rétt í Bandaríkjunum sjálfum. Bandarísk stjórnvöld telja fangana svokallaða „ólöglega bardagamenn“ sem beita megi „óhefðbundnum“ yfirheyrsluaðferðum, sem ég kalla, einmitt utan við bandarísk lög og rétt.

Talsmenn Bandaríkjastjórnar hafa staðfastlega haldið því fram að þrátt fyrir að fangarnir hafi verið handsamaðir í tengslum við vopnuð átök ríkja í milli njóti fangarnir í Guantanamo-herstöðinni ekki réttinda þriðja Genfarsáttmálans sem fjallar um meðferð stríðsfanga og bæði Bandaríkin og reyndar Afganistan eru líka aðilar að. Þarna er mönnum haldið föngnum utan við lög og rétt, þeim eru ekki birtar ákærur, þeir hafa ekki verið færðir fyrir rétt, fá ekki lögfræðilega aðstoð, hafa ekki getað leitað til dómstóla, ekki getað haft samband við fjölskyldur sínar nema í gegnum ritskoðuð sendibréf og þá fyrir milligöngu Alþjóða rauða krossins. Þessi meðferð Bandaríkjastjórnar á föngunum í Guantanamo hefur vakið harða gagnrýni mannréttindasamtaka, alþjóðlegra stofnana og lagaprófessora sem hafa skorað á hana að veita föngunum réttindi stríðsfanga og leyfa í það minnsta óháðum og hæfum dómstólum að úrskurða um hvort fangana beri að telja stríðsfanga eða „ólöglega bardagamenn“.

Mannréttindasamtök hafa einnig fordæmt þessa meðferð og skorað á Bandaríkjastjórn að loka þessu fangelsi þar sem fangar eru beittir líkamlegum og andlegum kvölum með ýmsu móti, m.a. látnir standa tímunum saman í óþægilegri líkamsstellingu, sviptir svefni, látnir þola mikinn hita eða mikinn kulda, stanslausa birtu og hávaða og fleira því um líkt. Á mannamáli eru slíkar aðferðir nefndar pyndingar, sem eru aldrei réttlætanlegar og skýlaust brot á alþjóðamannúðar- og mannréttindalögum. Tilraun Bandaríkjastjórnar til að innleiða nýja skilgreiningu um „ólöglega bardagamenn“ sem hvorki njóti verndar sem almennir borgarar né sem stríðsfangar og hægt sé að halda föngnum og jafnvel pynda árum saman án þess að þeim sé birt ákæra og tryggð réttlát málsmeðferð, er ósvífin atlaga að allri viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja mannréttindi, jafnt á tímum friðar sem ófriðar í heiminum.

Á þeim sex árum sem liðin eru síðan fyrstu fangarnir voru fluttir í herfangelsi Bandaríkjamanna í Guantanamo hefur umræðan í Bandaríkjunum um þær aðferðir og þá skilgreiningu Bandaríkjastjórnar sem ég nefndi verið allhávær og hún hefur leitt til þess að hæstiréttur Bandaríkjanna og Bandaríkjaþing hafa fjallað um þau álitamál sem hér eiga við. Meðal annars úrskurðaði hæstiréttur Bandaríkjanna 19. júní 2006 að sú túlkun að bandarísk lögsaga gilti ekki í Guantanamo ætti ekki við rök að styðjast. Þá gaf varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna út í júlí sama ár þá yfirlýsingu að Genfarsáttmálinn yrði virtur í Guantanamo. Aðstæðurnar geta samt engan veginn talist boðlegar þótt í orði kveðnu eigi Bandaríkjamenn að tryggja þessum föngum sömu lágmarksréttindi og öðrum stríðsföngum og þegar betur er að gáð reynast lög sem sett voru á Bandaríkjaþingi síðastliðið haust ekki ná því yfirlýsta markmiði sínu að veita þeim þetta öryggi og þykja þau jafnvel grafa undan almennu réttaröryggi í Bandaríkjunum.

Í greinargerðinni er einnig fjallað um lög sem sett voru í Bandaríkjunum 17. október 2006 þar sem Bandaríkjaforseta er falið að ákveða hvaða yfirheyrsluaðferðir teljist leyfilegar. Einnig er á það bent að í upphafi síðasta árs, þegar fimm ár voru liðin frá því að fangelsið í herstöðinni í Guantanamo var tekið í notkun, voru kynntar vinnureglur fyrir sérstakan herdómstól í Guantanamo. Þeirri stofnun var þar með heimilað að dæma sakborning á grundvelli sögusagna og framburðar sem hefur verið þvingaður fram, m.a. með pyndingum og þeim aðferðum sem ég rakti áðan. Verjandi sakbornings fyrir þessum sérstaka herdómstól í Guantanamo situr skör lægra en saksóknari því vilji hann leggja fram leynileg sönnunargögn má saksóknari fá að sjá þau en um sambærileg gögn sem saksóknari leggur fram gildir að verjandi fær ekki að sjá þau.

Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að fangelsinu í herstöðinni við Guantanamo var komið á hefur gagnrýni alþjóðasamfélagsins og gagnrýni innan Bandaríkjanna ekki haft umtalsverð áhrif. Það er því ljóst að Bandaríkjastjórn mætir öllum kröfum um að hún standi við alþjóðaskuldbindingar sínar á þessu sviði af sömu þrákelkninni og áður.

Sex ár eru liðin frá því að fyrstu fangarnir voru fluttir til Guantanamo. Þann 11. janúar síðastliðinn voru enn 277 fangar í Guantanamo, þeim hafði þó fækkað um 100 á liðnu ári en voru flestir nær 700 talsins. Á þessum tímamótum, sex ára afmælinu, heimsótti aðmírállinn Mike Mullen, sem er formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, herstöðina og fangelsið og það vakti athygli fréttamanna sem voru viðstaddir þá heimsókn að hann lýsti því yfir við það tækifæri að hann vildi loka fangelsinu í Guantanamo. Hvers vegna vildi aðmírállinn, formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, loka Guantanamo? Það var ekki vegna þess að meðferð fanganna bryti í bága við alþjóðalög, heldur vegna þess að umræður um fangelsið á alþjóðavettvangi hefðu haft skaðleg áhrif á ímynd Bandaríkjanna. Hitt er svo annað mál að Mike Mullen aðmíráll hlaut að viðurkenna fyrir þessum sömu fréttamönnum að lokun fangelsisins væri ekki á hans verksviði. Hann viðurkenndi einnig að honum væri ekki kunnugt um að neinar áætlanir væru uppi um að loka fangelsinu. Guantanamo hefði hins vegar svert ímynd Bandaríkjanna, haft skaðleg áhrif á hana, og því teldi hann að það ætti að loka henni.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu hættulegt fordæmi bandarísku pyndingabúðirnar í Guantanamo eru. Réttarbrotum og dómsmorðum hefur síst fækkað í meintu stríði Bandaríkjamanna og Vesturlanda gegn hryðjuverkavá um allan heim. Grundvallarréttindi fólks sem tryggð eru í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum eru takmörkuð eða numin úr gildi með fáeinum stjórnvaldsaðgerðum. Gagnrýni Bandaríkjastjórnar á mannréttindabrot annars staðar í heiminum hefur öll orðið mun ótrúverðugri fyrir vikið og róðurinn í baráttunni fyrir mannréttindum einungis þyngri. Á þetta hafa fjölmörg ríki bent og öll helstu mannréttindasamtök heims, svo sem Amnesty International og Human Rights Watch, allt frá því að flogið var með fyrstu fangana til Guantanamo. Það er því full ástæða til þess að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn láti í sér heyra um mannréttindabrotin í Guantanamo með skýrum hætti á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir því að fangabúðunum verði lokað.

Þar með tekur Alþingi undir kröfu mannréttindasamtakanna Amnesty International sem einnig hafa hvatt bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum. Það má þó ekki verða til þess að fangarnir verði fluttir annað á sambærilega staði annars staðar eða í leynifangelsi, og vísa ég þá til leynilegs fangaflugs sem mikið var í umræðunni á nýliðnu ári. Lykilatriði er að virða mannréttindi þeirra fanga sem þarna hefur verið haldið án dóms og laga og tryggja þeim réttláta málsmeðferð samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum.

Mike Mullen aðmíráll hefur áhyggjur af því að Guantanamo hafi svert ímynd Bandaríkjanna og haft skaðleg áhrif á hana. Alþingi Íslendinga getur einnig skaðast af því að taka ekki af skarið í þessu efni. Amnesty International skoraði síðastliðið haust á þingmenn, ekki í fyrsta sinn, að láta í sér heyra og mótmæla lögleysunni og mannréttindabrotunum sem þarna viðgangast og ég veit að ýmsir þingmenn brugðust vel við þeirri áskorun. Nú er komið að því að rödd Alþingis heyrist.