135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:28]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Við ræðum um tillögu sem er afskaplega þörf og ég vil taka undir allt sem sagt hefur verið í þessum umræðum og þakka fyrir það framtak að leggja tillöguna fram. Fram fer alþjóðleg barátta í þessum efnum, m.a. undir forustu Amnesty International, og margir þingmenn hafa sem betur fer tekið þátt í þeirri baráttu með undirskrift áskorunar.

Auðvitað má spyrja að því hver munurinn sé á Guantanamo-fangabúðunum þar sem pyndingar fara fram eða öðrum stöðum í heiminum þar sem álíka vinnubrögð eru viðhöfð því að vissulega eru margir í fangelsum í hinum stóra heimi, því miður. Þó hygg ég að þetta sé einsdæmi í þeim fangelsum sem rekin eru af hinum svokölluðu vestrænu þjóðum.

Það er önnur ástæða en nálægðin sem kallar á skyldur okkar í þessu efni sérstaklega og það eru óneitanleg tengsl okkar Íslendinga við allt ferli þessa máls, tengsl okkar við hinn óheppilega stríðsrekstur í Miðausturlöndum sem Bandaríkjamenn hafa haft forgöngu um. Við framsóknarmenn höfum litið svo á að þar hafi þáverandi ríkisstjórn gert mistök og að því liggja okkar yfirlýsingar og eins yfirlýsingar fráfarandi og núverandi formanns. Ég tel mikilvægt að við öxlum þá ábyrgð í verki með því að beita okkur í þessu máli. Þess vegna er mikilvægt að meðferð málsins sé hraðað og að ríkisstjórnin fylgi því fast eftir við vinaþjóð okkar, Bandaríkjamenn.

Flytja mætti langt mál um hvers vegna lýðræðisþjóð eins og Bandaríkjamenn — og þeir hafa vissulega, eins og hér hefur komið fram, verið í brjóstvörn lýðræðisins — hvers vegna slíkt ríki ratar í ógöngur sem þessar. Þar er auðvitað engin ein ástæða sem ræður öllu. Þó er eitt sem er gegnumgangandi í því þegar farið er að skoða alla þá umræðu sem er um baráttu gegn hryðjuverkum í heiminum, þar hefur trúarofstæki á báða bóga litað myndina. Í Bandaríkjunum hafa því miður menn með afskaplega öfgafullar skoðanir í þessum efnum, öfgafullar skoðanir gagnvart íslam og öfgafullar skoðanir gagnvart þeim þjóðum sem þá trú aðhyllast, komist til valda og það einkennir stundum umræðuna. Ég velti stundum fyrir mér hvort Guantanamo-búðirnar væru enn þá við lýði ef þar hefðu verið hnepptir í varðhald kristnir skæruliðar sunnan úr rómönsku Ameríku, svo að við tökum eitthvert raunhæft dæmi. Er ef til vill þannig komið fyrir okkur íbúum Vesturlanda að langlundargeð okkar gagnvart pyndingum af þessu tagi sé meira þar sem í hlut eiga íslamstrúarmenn og að einhverju leyti vegna þeirra hörmulegu atburða sem oft eru kenndir við 11. september og hafa auðvitað endurspeglast í fleiru heldur en akkúrat atburðum þann dag?

Þessi einföldun á heiminum er afskaplega óheppileg og afskaplega fávísleg. Hún kallar auðvitað á umræðu og endurmat gilda okkar. Við höfum auðvitað ekki leyfi til að útmála íslamstrúarmenn, eða þá sem koma frá þessum austrænu löndum sem lengi voru forustulönd í menningarmálum, sem óvini vestrænnar menningar, það geti réttlætt einhvers konar sérúrræði varðandi refsingar og eftirlit. Það hefur þó legið í loftinu á öllum Vesturlöndum og er það mjög miður.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég vil bara taka undir með öllum þeim sem töluðu hér áðan og ekki hvað síst með síðasta ræðumanni, hv. þm. Jóni Magnússyni sem sagði að hraða þyrfti meðferð þessa máls og auk þess þarf ríkisstjórnin að fylgja þessu fast eftir.