135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:39]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það sem hér skiptir máli er auðvitað hvort bandarískum stjórnvöldum haldist uppi sú meðferð sem þau hafa beitt varnarlaust fólk í Guantanamo-búðunum.

Það er alveg rétt að hæstiréttur Bandaríkjanna hefur að einhverju leyti reynt að hafa hönd í bagga með að halda aftur af stjórnvöldum í því efni en hitt er ljóst að þeir hafa ekki treyst sér til að endurmeta það að rekstur þessara búða falli undir svigrúm framkvæmdarvaldsins og að framkvæmdarvaldið megi reka þær. Án þess að ég ætli að setja hér á langar ræður um hæstarétt Bandaríkjanna er það hreinlega staðreynd að á síðustu áratugum hefur sigið þar mjög á ógæfuhliðina með úthugsaðri aðferðafræði af hálfu forsetans sem hefur miðað að því að koma að kamelljónum í hæstarétt sem síðan voru þess umkomin árið 2000 að tryggja fambjóðanda forsetaembætti þó að hann hefði ekki til þess atkvæðafjölda. Það er einfaldlega sú staðreynd sem ég er að vísa til, það hefur verið að borast gat á þá fagmennsku sem hefur einkennt hæstarétt Bandaríkjanna fram á síðustu ár og það er sérstakt áhyggjuefni að dómurinn hafi ekki talið sér mögulegt að mæla fyrir um lokun búðanna þó að þær brjóti augljóslega í bága við stjórnarskrárákvæði um mannréttindi.