135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:58]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Við þessi síðustu orð hv. þm. Dýrleifar Skjóldal er ekki miklu að bæta. Ég hlýt þó að þakka kærlega fyrir þær góðu umræður sem hér hafa orðið og þær góðu undirtektir sem þingmenn úr öllum flokkum hafa veitt tillögunni. Það vekur manni vonir um að Alþingi muni láta rödd sína heyrast með skýrum hætti þannig að eftir verði tekið á alþjóðavettvangi og það muni verða lóð á þá vogarskál réttlætis sem hér var nefnd þannig að fangabúðunum verði lokað.

Það er rétt sem hér var bent á að það er ekki langt eftir af kjörtímabili núverandi forseta í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ljóst er að í Hvíta húsinu hafa menn stjórnað þessum fangabúðum beint fram hjá lögum og rétti í Bandaríkjunum, fram hjá alþjóðlegum reglum, fram hjá bandarískum reglum og fram hjá reglum siðaðra manna eins og hér var bent á áðan. Ég hlýt að benda á að allir frambjóðendur demókrata til forsetakjörs í Bandaríkjunum hafa lýst sig fylgjandi því að loka fangabúðunum í Guantanamo. Aðeins einn frambjóðandi repúblikana, McCain, hefur lýst sömu skoðun svo að mér sé kunnugt. Einn frambjóðandi repúblikana, Mitt Romney, sem er fyrrverandi ríkisstjóri í Massachusetts, er hins vegar á því að tvöfalda beri búðirnar, það eigi að stækka þær.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að við eigum ekki að láta okkar eftir liggja. Ég tel og vona að hv. utanríkismálanefnd muni fjalla um þessa tillögu í þeim anda sem hún hefur verið rædd hér og, eins og bent var á af hv. þm. Árna Páli Árnasyni, hraði þeirri meðferð.