135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[17:01]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hlýt að notfæra mér rétt sem þingsköp veita mér til að koma á framfæri yfirlýsingu og athugasemd vegna þeirra fimm mála sem næst eru á dagskrá.

Þau eru flutt í tilefni af 10 ára afmæli Vestnorræna ráðsins, til fullnustu á samþykktum ráðsins frá 23. ágúst 2006, en ekki 2007 eins og hér segir, í Nuuk á Grænlandi. Flutningsmenn þessara tillagna eru sex þingmenn úr öllum flokkum nema, eins og glöggir menn sjá flokki Vinstri grænna. Menn gætu því álitið að þingmenn þess flokks væru ekki þessum tillögum fylgjandi. Mér þykir miður að þurfa að upplýsa að þingflokknum var ekki kunnugt um þennan tillöguflutning, hafði ekki tækifæri til að vera með á skjölunum en ég lýsi eindregnum stuðningi mínum og þingflokksins í heild við allar þessar tillögur sem næstar eru á dagskrá.