135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[17:03]
Hlusta

Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Forseti. Ég vil í byrjun nota tækifærið og vekja athygli á því að tillögurnar eru lagðar fram af hálfu þingmanna í Vestnorræna ráðinu. En af því að svo háttar til að enginn þingmaður úr Vinstri grænum er í Vestnorræna ráðinu þá heiti ég því að næst þegar lagðar verða fram slíkar tillögur verði rætt við Vinstri græna um þau mál.

Ég geri ráð fyrir því, miðað við athugasemd hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að öðrum þingmönnum eða flokkum hafi verið boðið að standa að tillögunni sem var til umfjöllunar áðan og fjallaði um fangabúðirnar í Guantanamo. Mér datt það í hug.

Frú forseti. Síðastliðinn 23. nóvember sökk farþegaskipið MV Explorer með alls 154 manns innan borðs í Suðurskautshafi í kjölfar áreksturs við ísjaka. Tókst að bjarga öllum um borð í björgunarbát í norska skipið MS Nordnorge. Slysið er raunverulegt dæmi um áhyggjur sem þingmenn Vestnorræna ráðsins hafa vegna tíðari ferða flutninga- og farþegaskipa á Norður-Atlantshafi. Farþegaskipið sem sökk í Suðurskautshafi hefur margoft haft viðkomu á Íslandi og Grænlandi þar sem hafís er, eins og við vitum.

Þingmenn hafa áhyggjur af því að ekki sé til staðar nægilegur viðbúnaður til að bregðast við stórslysi sem gæti orðið á Norður-Atlantshafi. Í ljósi þessara áhyggna var samþykkt ályktun á síðasta ársfundi ráðsins sem haldinn var í Nuuk á Grænlandi í ágúst 2007. Á henni er byggð þingsályktunartillagan sem sett er fram í dag. Ályktun ráðsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um að stuðla að aukinni samvinnu, samráði og samhæfingu um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi, bæði við Norðurlönd og önnur lönd við Norður-Atlantshaf. Lagt er til að unnið sé að því að koma á sameiginlegum björgunaræfingum til að samræma viðbúnað og samhæfa viðbrögð við stórslysum í Norður-Atlantshafi.“

Flutningsmenn ásamt mér eru aðrir fulltrúar Íslands í Vestnorræna ráðinu: hv. þm. Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson og Jón Gunnarsson.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hvorki er nægilegur björgunarviðbúnaður fyrir hendi til að bregðast við stórslysi á Norður-Atlantshafi né áætlun um hvernig samnýta megi þann búnað sem fyrir er hjá einstökum löndum við Norður-Atlantshaf. Það er áhyggjuefni í ljósi þess að atvinnustarfsemi eins og gas- og olíuvinnsla og skipaumferð vöruflutninga og skemmtiferðaskipa fer sívaxandi sem áður segir, sem eykur hættuna á slysum.

Skemmtiferðaskip á ferð um Norður-Atlantshaf hafa sum hver yfir þúsund farþega um borð. Lönd við Norður-Atlantshaf eiga öll aðild að fjölda alþjóðasamninga sem lúta að því að koma í veg fyrir stórslys og mengun. Siglingamálastofnun hefur eftirlit með að erlend skip uppfylli alþjóðleg skilyrði um haffærni eins og öryggisbúnað, áhöfn og mengun frá skipum á grundvelli Parísarsamkomulagsins. Það samkomulag kveður á um hafnarríkjaeftirlit en það er svæðisbundið samkomulag 27 ríkja Norður-Evrópu um skoðunarferli skipa sem tekur m.a. mið af reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Í frétt Morgunblaðsins um sjóslysið í Suðurskautshafi segir að gerðar hafi verið athugasemdir við skoðun á Explorer farþegaskipinu í mars, m.a. tvær um stjórnbúnað skipsins. Þá vaknar auðvitað spurningin um hvað sé gert í kjölfar slíkra athugasemda. Geta slík skip lagt úr höfn með fjöldann allan af farþegum?

Þrátt fyrir að kröfur um öryggisbúnað og áhafnir samkvæmt Parísarsamkomulaginu séu uppfylltar er það hins vegar oft svo að áhöfnin kemur annars staðar frá þar sem veðurfar og siglingaraðstæður eru gerólíkar því sem gerist í Norður-Atlantshafi. Á fundi þingmannaráðs Norðurskautsins sem haldinn var í október síðastliðnum í Ottawa, Kanada, kom t.d. fram að margir þeir sem sigla um Norðurhöf hafa litla sem enga reynslu af því að sigla við aðstæður svo sem sterka hafstrauma, hafís og þoku.

Landhelgisgæsla Íslands fer með löggæslu og hefur eftirlit með siglingu skipa á hafinu umhverfis Ísland og ber ábyrgð og yfirstjórn á leit og björgun á sjó. Sjóher Danmerkur sinnir sams konar hlutverki á hafsvæðinu kringum Færeyjar og Grænland og Siglingamálastofnun Danmerkur veitir m.a. leiðsögn við siglingar um hafsvæðið við Grænland. Ísland er í mikilli samvinnu við ýmis lönd um öryggismál á hafi, t.d. við Danmörku og Noreg. Ýmsir tvíhliða samningar eru fyrir hendi og fleiri eru í farvatninu og það er ánægjulegt.

Meira þarf að koma til. Vestnorræna ráðið telur að auka þurfi samvinnu, samhæfingu og sameiginlegar björgunaræfingar allra landanna við Norður-Atlantshaf. Það er samdóma álit þeirra sem vinna við siglingaeftirlit og björgun að ekki sé til staðar viðunandi áætlun um samnýtingu björgunarviðbúnaðar og samræmingu aðgerða til að bregðast við hugsanlegum mengunarslysum og mannskaða ef um stórfellt sjóslys yrði að ræða, t.d. í tengslum við gas- eða olíuflutninga eða siglingu skemmtiferðaskips með þúsundir farþega um borð. Hér er um að ræða gríðarlega víðfeðmt hafsvæði en mjög stór hluti þess er alþjóðlegur og því nauðsynlegt að ná víðtæku samkomulagi um björgunarmál eins og mælst er til í ályktun Vestnorræna ráðsins.

Í ályktuninni er kallað eftir samstarfi allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta við Norður-Atlantshaf um að finna varanlegan, samræmdan og viðunandi viðbúnað til að fyrirbyggja slys og eiga samstarf um björgun á svæðinu ekki síst á alþjóðlegum sjóleiðum þar sem slys geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífsafkomu þjóða við Norður-Atlantshaf.

Einnig er lagt til að unnið verði að því að koma á sameiginlegum björgunaræfingum þar sem viðbúnaður til björgunar er samnýttur og viðbrögð við stórslysum í Norður-Atlantshafi samhæfð. Ársfundur Vestnorræna ráðsins í ágúst ákvað að björgunarmál yrðu þema næstu þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í júní í Færeyjum á næsta ári.

Í lok október kynnti ég ályktun Vestnorræna ráðsins á Norðurlandaráðsþingi á grundvelli samstarfssamnings milli Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs, sem undirritaður var árið 2006. Það er ánægjulegt að segja frá því að Norðurlandaráð varð við áskorun Vestnorræna ráðsins og var þemafundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem haldinn var í Reykjavík 14. desember um samstarf landa við Norður-Atlantshaf um björgunarmál. Ég vil nota tækifærið til að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem einmitt er í utanríkisnefnd og í forsætisnefnd Norðurlandaráðs fyrir góða framgöngu í því máli

Að svo mæltu legg ég til, frú forseti, að þessari tillögu verði vísað til utanríkismálanefndar.