135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

stofnun norrænna lýðháskóla.

275. mál
[17:32]
Hlusta

Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Frú forseti. Á þessum þingfundi er verið að ræða þingsályktunartillögur þingmanna Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og hér kemur tillaga nr. 2. Hún var samþykkt í Nuuk 23. ágúst 2007 og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um fjárhagslegan stuðning við vinnuhóp á vegum Vestnorræna ráðsins sem í samvinnu við forsætisnefnd og skrifstofu Vestnorræna ráðsins útfæri tillögu að stofnun norrænna lýðháskóla á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.“

Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson og Jón Gunnarsson.

Vestnorræna ráðið hefur ályktað um fjölda mála sem varða menntun og aukin samskipti milli ungmenna á Vestur-Norðurlöndum og á Norðurlöndunum í heild og aukið samstarf milli mennta- og rannsóknastofnana. Á ársfundi Vestnorræna ráðsins árið 2006 var t.d. samþykkt ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld í öllum löndunum þremur að auka kennslu í sögu, menningu og tungumálum Vestur-Norðurlanda.

Hugmyndin að stofnun lýðháskóla er komin frá Færeyjum og er markmið hennar að skapa ákveðinn ramma utan um miðlun þekkingar, kennslu og bein samskipti milli vestnorrænu landanna og annarra Norðurlanda en hugmyndin er að stofna námsbraut eða lýðháskóla á Vestur-Norðurlöndum sem nemendur frá öllum Norðurlöndunum geta sótt. Það er þó vert að undirstrika að hugmyndin er ekki fullmótuð heldur gengur ályktun Vestnorræna ráðsins út á að stofna vinnuhóp með fjárhagslegum stuðningi norræna ráðherraráðsins sem hafi það hlutverk að útfæra þessa hugmynd frekar í samvinnu við forsætisnefnd og skrifstofu Vestnorræna ráðsins. Upprunalega hugmyndin gerir t.d. ráð fyrir því að norrænu lýðháskólarnir séu reknir á Vestur-Norðurlöndum með framlagi frá hverju landi fyrir sig auk annars norræns stuðnings en undir sameiginlegri stjórn á grundvelli sameiginlegrar námskrár, kennslumats og annarra þátta. Sem dæmi um útfærslu gætu menntamálaráðuneyti landanna komið sér saman um einhvers konar vestnorræna námsbraut sem síðan væri hægt að koma á fót með sérstökum formerkjum innan núverandi menntakerfis eins og best hentar í hverju landi.

Það er ósk okkar þingmanna Vestnorræna ráðsins, frú forseti, að ríkisstjórnin geri samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að veita slíkum vinnuhóp beinan fjárhagslegan stuðning og beiti sér fyrir því að norræna ráðherranefndin veiti vinnuhópnum nauðsynlegt fjármagn til að útfæra hugmyndina frekar.

Frú forseti. Ég legg til að þingsályktunartillögunni verði vísað til utanríkismálanefndar.