135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

skyldunámsefni fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum.

276. mál
[17:36]
Hlusta

Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Frú forseti. Þingsályktunartillaga þessi var flutt af fulltrúum í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins sem eru auk mín hv. þingmenn Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson og Jón Gunnarsson. Tillagan er flutt á grundvelli ályktunar sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins í ágúst og er svohljóðandi:

„Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um gerð skyldunámsefnis fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindi. Markmið þess yrði að auka umræðu um jafnréttismál og skilning á því að kvenréttindi eru mannréttindi óháð menningu, sem og að auka þekkingu á ólíkum kjörum og hlutskipti kvenna á norðurslóðum.“

Ofbeldi gegn konum er þjóðfélagslegt mein og kynferðislegt ofbeldi er eitt alvarlegasta brot gegn mannhelgi. Talið er að ein af hverjum þremur konum um allan heim hafi verið barðar, þvingaðar í kynlíf eða misnotaðar á einhvern hátt einhvern tímann á lífsleiðinni. Í niðurstöðum einnar víðtækustu mannlífsrannsóknar sem gerð hefur verið á norðurslóðum, Survey of Living Conditions in the Arctic, kemur m.a. fram að meira en helmingur viðmælenda telur heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi vera félagslegt vandamál í sinni heimabyggð. Um 60% viðmælenda á Grænlandi telja t.d. að heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi sé vandamál í þeirra samfélagi. Við þessu ber að sporna. Ofbeldi gegn konum er mannréttindabrot. Sú staðreynd hefur verið viðurkennd og innsigluð í alþjóðlegum yfirlýsingum og samningum eins og mannréttindayfirlýsingum Sameinuðu þjóðanna og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum. Dagur Sameinuðu þjóðanna, tileinkaður afnámi ofbeldis gegn konum, er einnig til vitnis um þá almennu viðurkenningu sem fordæming á kynbundnu ofbeldi hefur fengið á alþjóðavísu en hann er haldinn 25. nóvember ár hvert.

Hérlendis og erlendis markar dagurinn jafnframt upphaf 16 ára átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem rekja má aftur til ársins 1991. Áhrif kynbundins ofbeldis eru víðtæk. Ofbeldi takmarkar möguleika kvenna til menntunar og atvinnuþátttöku og viðheldur þar með valdaleysi þeirra og fátækt. Fyrir utan mannréttindaskerðinguna sem ofbeldi gegn konum felur í sér hafa hagfræðingar sýnt fram á hvernig misrétti og ofbeldi gegn konum kemur niður á hagvexti. Í hnotskurn er margs konar ávinningur af því að sporna gegn heimilis- og kynferðisofbeldi þar sem það stendur í vegi fyrir samfélagslegri þróun. Þeirri staðreynd er m.a. gerð skil í þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en kynjajafnrétti er eitt af þúsaldarmarkmiðunum 10. Þar fyrir utan leggja Sameinuðu þjóðirnar áherslu á að það sé mikilvægur þáttur þess að hægt sé að uppfylla öll hin markmiðin. Lög eru mikilvæg og aðrar sértækar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna, frú forseti. Jafnrétti í reynd kallar hins vegar einnig á viðhorfsbreytingu í þá veru að líta á konur og karla sem einstaklinga sem hafa sama rétt og virðingu. Það tekst aðeins með markvissum aðgerðum. Viðhorfum er viðhaldið eða breytt samfara félagsmótun barna og ungmenna. Sú félagsmótun fer einkum fram innan fjölskyldunnar og menntakerfisins.

Vestur-Norðurlönd hafa lengi haft hefð fyrir góðri og víðtækri samvinnu. Vestnorræna ráðið leggur mikla áherslu á að löndin sameinist í baráttu gegn heimilis- og kynferðisofbeldi með því að gefa út námsefni á unglingastigi þar sem yrði að finna upplýsingar um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum, þar með talið jákvætt samfélagslegt hlutverk kvenna sem sterkra fyrirmynda og einstaklinga í samfélagi við karlmenn. Í samræmi við markmið með gerð námsefnisins yrði síðan að samþætta upplýsingar um mannréttindi og kvenréttindi eins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samninginn um afnám allrar mismunar gagnvart konum auk annars tengds efnis inn í námsefnið með það að markmiði að gera sambandinu á milli mannréttinda, menningar og stöðu kvenna skil og miðla reynslu sinni af leiðum til að sporna við og taka á vandamálinu. Slíkt námsefni yrði lóð á vogarskálar viðhorfsbreytinga þar sem það yrði notað með markvissum hætti til að vekja athygli á vandamálunum og taka á þeim.

Það er mér ánægjuefni, frú forseti, að segja frá því að tillagan hefur fengið góðar undirtektir hvar sem hún hefur verið kynnt. Ég legg til að henni verði vísað til utanríkismálanefndar.