135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

skyldunámsefni fyrir unglinga um ólík kjör og hlutskipti kvenna á norðurslóðum.

276. mál
[17:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það væri hægt að hafa langa umræðu um þetta mál og ýmislegt sem tengist því og viðhorfum til þess sem við leggjum til, að gert verði að skyldunámsefni fyrir unglinga að kynnast ólíkum kjörum og hlutskipti kvenna á norðurslóðum og mannréttindum. Þegar við ætlum að koma fram breytingum á viðhorfum sem hafa þróast með fólki í ólíkum þjóðfélögum við ólíkar aðstæður verður það aðeins gert með einum hætti, með upplýsingum, með því að breyta viðhorfum æskunnar. Einhvers staðar segir gamalt máltæki að það sé erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Ég veit ekki hvort það á við í þessu sambandi en ég hygg samt að hið sama eigi við um þessi þrjú ríki, að það er oft og tíðum erfitt að breyta viðhorfum gamals fólks. Við leggjum til að horft verði til ungmennanna, að jafnrétti í reynd kalli fram viðhorfsbreytingu. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Viðhorfum er viðhaldið eða breytt samfara félagsmótun barna og ungmenna sem einkum fer fram innan fjölskyldunnar og menntakerfisins.“

Það er hárrétt. Ef breyta á viðhorfum er það gert með því að bera á borð fræðslu, rökræða efnið og fá fólk til að skilja að ríkjandi viðhorf eiga ekki endilega rétt á sér og þeim beri að breyta. Það gerir maður með því að innræta æsku landsins nýja þekkingu og ný viðhorf og með því að koma á framfæri þekkingu um misjöfn kjör kvenna á norðurslóðum og á Vestur-Norðurlöndum. Við teljum að tillagan sé lóð á þær vogarskálar að kalla fram viðhorfsbreytingu í þá veru að líta konur og karla sömu augum, líta á þau sem manneskjur sem hafi að öllu leyti sama rétt, sömu mannréttindi og mannhelgi.

Tillagan er ákaflega vel hugsuð til að ná þessum markmiðum en hún hefur ekki mikið gildi nema henni sé hrundið í framkvæmd. Þegar henni verður hrundið í framkvæmd, sem vonandi verður sem allra fyrst, þarf að fylgja fræðslunni og kynningunni eftir. Það tekur síðan áratugi að breyta ríkjandi viðhorfum sem kunna að vera fyrir hendi, t.d. í veiðisamfélögum í nyrstu byggðum Grænlands svo að ég nefni það sem dæmi.

Hæstv. forseti. Þetta er mál sem er afar nauðsynlegt og snýr að öllum þessum ríkjum, Grænlandi, Íslandi og Færeyjum, og kallar það fram að við reynum af fremsta megni að kynna það sem við viljum leggja til grundvallar þannig að jafnrétti verði í reynd.