135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna vestnorrænu landanna um rannsóknir á helstu nytjastofnum sjávar innan lögsögu þeirra.

278. mál
[18:22]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé lögð fram. Ég tel hana vera mjög af hinu góða. Starfandi sjómenn hafa ekki treyst nógu vel — og ekki er nógu gott samstarf eða samband á milli sjómanna og fiskifræðinga á Íslandi, þá sérstaklega fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar. Starfandi sjómenn eru alls ekki ánægðir með vinnubrögð og aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar á Íslandi, hvernig hún starfar, hvaða aðferðir hún notar til að meta stofna og stofnstærðir og annað í þeim dúr. Það höfum við fjallað um hér á haustþinginu oft og mörgum sinnum, sérstaklega við í Frjálslynda flokknum. Ég get ekki annað en minnst á að í þingsalnum taka nú þrír þingmenn þátt í umræðunni. Hér er góð þingsályktunartillaga sem gengur út á að efla samstarf og samvinnu milli þessara þriggja landa, Færeyja, Íslands og Grænlands, og áhugi þingmanna er enginn fyrir þessum málum. Það er bara svo sorglegt. Þeir mæta ekki hingað til að ræða þessi mál.

Segir það kannski dálítið um Alþingi Íslendinga í dag, hvar áhugamál þeirra þingmanna sem á þessu þingi starfa eru. Þeir hunsa umræðuna algjörlega.

Við eigum, eins og fram hefur komið hjá öðrum ræðumönnum, stofna sem synda úr íslensku landhelginni í þá færeysku og úr þeirri færeysku yfir til Íslands og svo frá Íslandi yfir til Grænlands og frá Grænlandi til Íslands. Þess vegna getur þetta blandast meira og víðar því að fiskur er með sporð og hann virðir engar landhelgislínur eða neitt í þeim dúr. Það er ekki bara þorskur sem gengur við Grænland eða yfir til Færeyja, það eru einnig grálúða, loðna, kolmunni, síld, úthafskarfi og djúpkarfi, og rækja er víða eins og á Dohrn-banka og víðar. Þar liggur landhelgislína yfir veiðisvæði og rækjan færir sig til eftir aðstæðum, eftir hitastigi og öðru.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson minntist áðan á að nýlega hefðu veðurfræðingar upplýst að þeir teldu að veður hefði meiri áhrif á sjávarhita en talið hefur verið. Á síðasta ári viðurkenndu fiskifræðingar fyrst að það séu margir þorskstofnar — jafnvel margir stofnar í hverri tegund. Það fundu þeir út með DNA-rannsókn. Loksins uppgötvum við þetta, á árinu 2007, sem segir auðvitað mikið um hvað við vitum lítið um þessi mál. Þrátt fyrir það setjum við allt traust okkar á fiskifræðinga og það sem þeir halda fram, að það sé allt hárrétt. Ég get ekki annað en minnst á það þegar fiskifræðingar komu með þær upplýsingar að brottkast á Íslandi væri bara 1,5%. Þá getur maður lítið annað gert en að hrista hausinn og furða sig á því. Ef vinnubrögð fiskifræðinganna eru ekki betri en raun ber vitni er full þörf á að við reynum að komast í samband við aðra fiskifræðinga, frá öðrum löndum, og athuga hvort þeir séu ekki aðeins víðsýnni og ekki jafnfastir í hjólförunum og fiskifræðingar okkar hafa verið síðustu ár. Ég held að samstarf við danska og færeyska fiskifræðinga geti ekki orðið til annars en góðs fyrir okkur. Reyndar hafa Færeyingar búið við það að danskir fiskifræðingar sem fjallað hafa um veiðiráðgjöf og vinnubrögð Færeyinga hafa oft og tíðum ekki verið sammála, sérstaklega á dönsku hafrannsóknastofnuninni. Hún hefur skipt sér af vinnubrögðum Færeyinga. Mikill þrýstingur kom frá Dönum um að þeir tækju upp svokallað aflamarkskerfi sem þeir og gerðu í eitt og hálft ár. Þá sáu þeir að það gekk ekki upp því að menn sorteruðu úr aflanum, hirtu stærstu fiskana og hentu þeim og ódýrustu smæstu og hættu þess vegna. Þeir höfðu vit á því, þeir gerðu þetta í eitt og hálft ár en við erum búin að gera þetta í 24 ár og árangurinn hefur enginn verið í uppbyggingu okkar á fiskstofnum nema síður sé.

Stofnar sem við búum við í dag, eins og loðnustofninn sem er nánast hruninn — það er búið að skera þorskinn niður, sennilega þó allt of mikið af því að þeir mæla þorskstofninn hreinlega ekki rétt. Fiskifræðingar okkar úthluta sennilega of miklum kvóta í ýsu og þess vegna gæti aukið samstarf við fiskifræðinga frá öðrum löndum og aðra vísindamenn orðið til góðs fyrir okkar menn. Þó að töluvert samstarf sé á milli íslenskra og erlendra fiskifræðinga held ég að aukið samstarf sé mjög af hinu góða til framtíðar litið.

Auknar rannsóknir í samstarfi við aðra á sameiginlegum stofnum eru mjög nauðsynlegar.

Einu vildi ég þó vara við og það er að ég hef heyrt að Norðmenn sækist eftir að komast í aukið samstarf og jafnvel að ganga inn í vestnorræna samstarfið. Það held ég að við ættum að reyna að forðast og halda þessu í því formi sem vestnorræna samstarfið er, þ.e. samstarf þessara þriggja landa.

Við þurfum líka að hugleiða hvort við getum tekið þátt eða hafið samstarf um veiðar t.d. í landhelgi Grænlendinga þar sem þeir hafa ekki mikinn skipastól. Við þyrftum að athuga hvort hægt væri að koma á auknu samstarfi varðandi nýtingu fiskimiða sem eru jafnvel lítið nýtt eða algjörlega ónýtt. Ég held að menn ættu að skoða það í framhaldi af samstarfinu varðandi hafrannsóknir og upplýsingagjöf milli landa og annað í þeim dúr. Ég held að það gæti verið möguleiki fyrir okkur sem erum, a.m.k. að sumra mati, með það öflugan og stóran fiskiskipaflota að hann sé oft hálfverkefnalaus, hvort hægt væri að búa til verkefni á Grænlandi í samráði og samvinnu við Grænlendinga. Það gæti skipt íslenskan sjávarútveg miklu mál ef til þess kæmi.

Varðandi þingsályktunartillöguna þá tel ég hana mjög góða og vera spor í rétta átt. Þeir sem fluttu hana eiga þakkir skildar. Fyrsti flutningsmaður, Karl V. Matthíasson, á heiður skilinn, hann hefur bersýnilega átt þennan dag og fjallað hér um mörg ágæt mál. Ég vona að þau nái öll fram að ganga og fái víðtækan stuðning í þingsal.