135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

málefni lögreglunnar.

[15:18]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Á þessu ári munu útskrifast frá lögregluskólanum, ef ég veit rétt, um 80 manns. Það er stefnt að því að reyna að hafa sem flesta nemendur í lögregluskólanum og það er lykillinn að því að fá sem flesta til að starfa að lögreglumálum með þá menntun sem krafist er. Það er m.a. unnið að því að setja saman tillögur um nýjan löggæsluskóla ríkisins til þess að efla starf á þessu sviði, menntunarstarf fyrir lögreglu, fyrir fangaverði, fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar og fyrir tollverði. Það er því unnið mjög markvisst að því að breyta þessu umhverfi í von um að það takist að fá fleiri menn, karla og konur, til að koma til þessara starfa.

Það var einnig spurt um launamálin og auðvitað skipta þau máli fyrir lögreglumenn eins og allar aðrar stéttir og um þau verður samið og gengið frá nú á þessu ári þannig að menn munu sjá hver niðurstaða fæst í því. En lögreglan býr hins vegar við sömu aðstæður og aðrir sem starfa á opinberum vettvangi að miðað við þær aðstæður sem verið hafa í þjóðfélaginu þá hefur gengið illa að ráða menn til starfa hjá opinberum aðilum, hvort sem er í lögreglunni, heilsugæslunni eða á öðrum sviðum, leikskólum og grunnskólum. Ég get farið yfir langt svið sem hv. þingmaður þekkir. Þetta er því mál sem allir þeir sem reka opinbera starfsemi standa frammi fyrir sem viðfangsefni og þurfa að átta sig á hvernig unnt er að bæta úr.

Varðandi öryggismál lögreglunnar þá hef ég mínar skoðanir á því. Ég get ekki útilokað að það þurfi að búa þannig um hnútana að lögreglan þurfi að vopnast ef ástandið heldur áfram að þróast á þann veg sem við höfum kynnst.