135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

nefnd um úrræði á húsnæðismarkaðnum.

[15:22]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þann 27. ágúst á síðasta ári skipaði félagsmálaráðherra nefnd til móta tillögur sem áttu að miða að því að efla hinn félagslega þátt húsnæðislánakerfisins, þar með talinn leigumarkaðinn og lánveitingar til fólks undir skilgreindum eigna- og tekjumörkun.

Það var mjög mikilvægt að skipa þessa nefnd að mínu mati og trúlega flestra hér á Alþingi Íslendinga því staðan á húsnæðismarkaðnum hér á höfuðborgarsvæðinu er með þeim hætti að ungt fólk getur ekki keypt sér eða leigt sér húsnæði. Yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að það ríkti neyðarástand á húsnæðismarkaðnum og að þessi nefnd mundi skila af sér 1. nóvember á síðasta ári vöktu eðlilega ákveðnar væntingar í brjóstum þeirra sem eru í þessari stöðu á húsnæðismarkaðnum.

Í svari hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, þann 20. nóvember hér á hv. Alþingi segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeirri nefnd sem nú er að móta tillögur varðandi úrlausnir þeirra sem eru fyrstu íbúðakaupendur og fólks sem er undir ákveðnum tekjueignarmörkum er því vandi á höndum. Hún“ — þ.e. nefndin — „mun væntanlega skila niðurstöðum á næstu dögum sem bæta eiga hag fyrstu íbúðakaupenda og byggja upp almennan leigumarkað og fjölga búsetuformum.“

Hæstv. forseti. Þann 20. nóvember á síðasta ári sagði hæstv. ráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir að von væri á tillögum frá þeirri nefnd sem hún setti á fót á síðasta ári og vakti þar með miklar væntingar í brjósti þess fólks sem bíður eftir einhverjum raunverulegum úrræðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Það er staðreynd að hæstv. ráðherra hefur vakið upp gríðarlega miklar væntingar. Nú er langt genginn janúarmánuður á árinu 2008 og við hljótum að (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær mun þessi nefnd skila af sér?