135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

nefnd um úrræði á húsnæðismarkaðnum.

[15:26]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hreinskilnisleg svör héðan úr pontu Alþingis. Við getum ekki sagt að hæstv. samgönguráðherra hafi svarað fyrirspurnum hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur sem sama hætti hér áðan. Ég hélt að þetta væri fyrirspurnatími og því til mikillar fyrirmyndar hjá hæstv. félagsmálaráðherra að svara hreinskilnislega fyrirspurnum mínum hér. Enda er þessi fyrirspurnatími til þess ætlaður.

En af því að hæstv. ráðherra hefur sagt okkur að tillögur þessarar nefndar liggi fyrir og Samfylkingin hefur boðað opna umræðu og umræðustjórnmál, er þá ekki rétt að hæstv. ráðherra kynni okkur niðurstöður nefndarinnar þannig að þær geti komið til kasta þingsins við almenna umræðu án þess að þær séu í einhverjum skúffum uppi í ráðuneytum. Við alþingismenn þurfum líka að geta tekið tillit til þeirra tillagna sem nú liggja fyrir. Við erum hér í vinnu fyrir hönd íslensks almennings og ég geri þá kröfu að við fáum að sjá niðurstöðu nefndarinnar þannig að við sem þingmenn getum mótað (Forseti hringir.) okkur afstöðu í þessum efnum. En ég ítreka það, að yfirlýsingar hæstv. ráðherra eru með þeim hætti að miklar væntingar eru bundnar við það sem kemur út úr þessari vinnu.