135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:44]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu og taka það fram að við framsóknarmenn styðjum að sjálfsögðu framboð til öryggisráðsins enda var það í okkar tíð sem þetta mál hófst, í tíð Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra. Það hefur vissulega gefið á bátinn og ekki alltaf verið haldið skynsamlega á málum, ég vil t.d. nefna að í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar var þetta mál sett á ís og það er ekki útséð um hvaða afleiðingar það kann að hafa haft.

Síðan hafa ákvarðanir af hálfu núverandi hæstv. utanríkisráðherra ekki alltaf verið skynsamlegar að mínu mati með tilliti til þess að ná árangri, eins og t.d. það að kalla heim friðargæsluliða sem starfaði að upplýsingamálum í Írak að beiðni írakskra stjórnvalda.

Hvað varðar álit mannréttindanefndarinnar finnst mér að báðir forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi komið með óskynsamleg útspil og yfirlýsingar í upphafi þessa máls, forsætisráðherra með því að segja ákveðið að lögum verði ekki breytt og utanríkisráðherra með því að segja nánast að lögum verði breytt — þó að hún færi dálítið í kringum heitan graut í ræðu sinni áðan. Þarna tjá ráðherrarnir sig áður en málið hefur verið skoðað og áður en farið hefur verið yfir allar hliðar þess. Vissulega sýnir þetta líka að ríkisstjórnin er ósammála í þessu máli eins og svo mörgum öðrum en það er reyndar ekki fréttaefni lengur.

Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra, þetta mál skiptir gríðarlega miklu. Það skiptir miklu máli hvernig brugðist verður við vegna þess að við erum að tala um grundvallaratvinnuveg á Íslandi, sjávarútveginn, og þess vegna þarf að leita samráðs og það þarf að vinna að þessu máli af hálfu allra stjórnmálaflokka. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir að vera ríkisstjórn sátta og samráðs muni leita til allra flokka áður en formlega verður gengið frá áliti sem við höfum víst einhverja (Forseti hringir.) daga til viðbótar til að gera.