135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:47]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að vekja máls á þessu málefni. Í máli hæstv. utanríkisráðherra kom fram og var sérstaklega talað um það að Ísland hefði fullgilt þann mannréttindasamning sem hér um ræðir hvers álit nefndar Sameinuðu þjóðanna er byggt á. En það var gert eftir að Alþingi Íslendinga hafði samþykkt þingsályktunartillögu þann 8. maí 1979 um þetta atriði, þannig að það var Alþingi Íslendinga sem hafði forgöngu um málið. Á þeim grundvelli skrifaði og fullgilti framkvæmdarvaldið á sínum tíma eða þáverandi utanríkisráðherra þann samning sem um var að ræða, mannréttindasamning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Það er því eðlilegt, þegar fyrir liggur niðurstaða úrskurðarnefndar, mannéttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, í mjög mikilvægu máli sem hefur verið höfðað af einstaklingum gagnvart íslenska ríkinu, að hér sé spurt hvort það sé eðlilegt og hvort við ætlum að halda fast við þetta framboð okkar en fara í engu að því áliti sem liggur fyrir. Það er eðlilegt að hæstv. utanríkisráðherra sé spurð að því hvort hún telji að við séum bundin af þjóðarrétti vegna þeirrar niðurstöðu sem þarna er um að ræða eða ekki.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson spyr: Heldur þingmaðurinn, og þá á hann við Kristin H. Gunnarsson, að við séum skuldbundin? Ég svara því þannig og segi já, við erum skuldbundin af þjóðarrétti til að fara eftir þessari niðurstöðu og þess vegna skiptir það máli við þessa umræðu og þær kosningar og kosningabaráttu sem um er að ræða að við förum að þjóðarrétti. Við getum ekki ætlast til þess að þjóðir heims kjósi ríki ef það fer ekki eftir þeim samningum og sáttmálum sem það hefur sjálft undirritað.