135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta málefni og vil segja að Ísland hefur lagt sitt mál fram á forsendum mannréttinda innan lands sem erlendis og að á því sé ekki munur og menn eigi ekki að aðgreina það.

Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé mikið óréttlæti fólgið í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi gagnvart tilteknum íbúum hér á landi. Tugir þúsunda Íslendinga í sjávarþorpum um allt land hafa mátt líða fyrir þetta misrétti síðasta áratug. Það eru mannréttindi fyrir hvern og einn Íslending að fá að lifa og starfa í sinni heimabyggð og það er brotið á þeim mannréttindum þegar sett er löggjöf sem kemur hlutunum svo fyrir að menn neyðast til að flytja úr heimabyggðinni. Þau mannréttindi eru ekkert minna virði en mannréttindi annars staðar. Ég tek undir það sem fram hefur komið og ég vitnaði til í máli hæstv. utanríkisráðherra að það á ekki að aðgreina mannréttindi innan lands og erlendis. Ég tel það vel mælt.

Við getum ekki ráðið því, virðulegi forseti, hvort þær þjóðir sem kjósa munu í október nk. um hvaða ríki fara inn í öryggisráðið láti þetta mál hafa áhrif á sig eða ekki. Það er ekki á okkar valdi. Það er þeirra að meta fyrir hvað Ísland segist ætla að standa borið saman við það hvað svo gerir við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem varðar tugi þúsunda Íslendinga. Menn hljóta að horfa til þess ef Ísland á að rísa undir því sem það segist vera í þessari kosningabaráttu, fyrirmynd annarra þjóða.