135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[16:00]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram þó að reyndar hafi verið komið víða við. Upphafsmaður umræðunnar, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, taldi að trúverðugleiki Íslands gæti verið í húfi vegna sjónarmiða mannréttindanefndarinnar, trúverðugleiki Íslands sem frambjóðanda til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ég held að við verðum að reyna að meta stöðuna á réttan hátt og vara okkur á því að ofmetnast ekki í þessum málum frekar en öðrum.

Ég er ekki viss um það, hv. þingmaður, og ég tel mig reyndar hafa nokkuð góða tilfinningu fyrir því hvað menn eru að tala um varðandi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, ég er ekki viss um að sjónir heimsins beinist að Íslandi vegna þessarar niðurstöðu eða þessara sjónarmiða mannréttindanefndarinnar. Ég hygg að sjónir heimsins beinist að alvarlegri mannréttindabrotum sem eiga sér stað um allan heim.

Við hverja erum við að keppa þegar kemur að því að leita eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Við erum að keppa við Austurríki og Tyrkland. Ég hlýt að lýsa furðu minni á sjónarmiðum sem mér finnst örla á í umræðunni af hálfu vinstri grænna, að þeir líti svo á að m.a. Tyrkland sé betur til þess fært að gæta mannréttindasjónarmiða eða almennra pólitískra sjónarmiða í öryggisráðinu en Ísland. Við Íslendingar hljótum að líta svo á að við séum vel til þess fallin að sitja þarna, við höfum mörgu að miðla, við höfum margt í farteskinu sem læra má af og þess vegna erum við tilbúin til að axla þá ábyrgð sem fylgir því að sitja í öryggisráðinu og tilbúin til að kosta því til sem þarf. Við getum ekki búist við því að fátækar þjóðir í Afríku séu tilbúnar að (Forseti hringir.) axla þá ábyrgð að sitja þarna og bera þann kostnað og vera svo ekki tilbúin til þess sjálf.