135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:09]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að svara fyrri spurningunni sem hv. þingmaður lagði fyrir mig vegna þess að við vitum ekki forsendurnar. Við vitum í fyrsta lagi ekki hvað er líklegt að veiðist á þá báta sem gerðir verða út í sumar. Það eru mjög margir óvissuþættir því samfara og þess vegna er mjög erfitt að átta sig á þessu en auðvitað er þetta kostnaður. Þetta er hins vegar kostnaður sem ætti að vera auðvelt að velta inn á þá sem kaupa sér þessi veiðileyfi. Það er ekkert óeðlilegt við það að þeir sem fara til slíkra veiða og fénýta þennan afla séu undir svipaða sök seldir og aðrir sem stunda veiðar í því skyni að fénýta aflann. Þess vegna tel ég ekki eðlilegt í sjálfu sér að taka þennan flokk út fyrir sviga og segja að um þessa báta eigi að gilda allt aðrar og sérstakar reglur sem ekki gilda um aðra sem fara á sjó. Ég get því ekki tekið undir að það sé skynsamlegt að taka frá eitthvert aflamagn og færa sérstaklega til þessara báta. Ég tel miklu eðlilegra að þeir starfi innan almennari laga.

Eins og hv. þingmaður veit hafa hins vegar sum sveitarfélög, t.d. á Vestfjörðum, kosið að nýta hluta af byggðakvótum sínum í þessu skyni og það er ekkert óeðlilegt við það. Að mínu mati er það á margan hátt áhugaverð tilraun vegna þess að byggðakvótanum er ætlað að renna nýjum stoðum undir atvinnulífið í þessum smærri byggðum. Þess vegna er alls ekki óskynsamlegt, nema síður sé, að nota byggðakvótann í þessu sambandi.

Stóra málið er þá einfaldlega þetta: Hér er um að ræða útgerð báta sem í raun og veru gerir nákvæmlega sömu hluti og útgerðir annarra báta. Menn fara á sjóinn, menn fiska og selja afla sinn. Eina undantekningin er sú að þessir bátar hafa ýmsar aðrar rýmri heimildir. Þarna er t.d. ekki um að ræða sömu kröfur um skipstjórnarréttindi og þess háttar og gerðar eru almennt til annarra báta. Það má því segja sem svo að löggjöfin sé (Forseti hringir.) að koma til móts við útgerðir þessara báta með ýmsum öðrum hætti.