135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka að hér er um nýja atvinnugrein að ræða sem miklar vonir eru bundnar við. Ekki síst í sjávarbyggðunum sem standa höllum fæti og hafa mátt beygja af. Ekki síst vegna rangláts fiskveiðistjórnarkerfis og kvótaúthlutunar sem var til umræðu áðan og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemdir við að standist ekki stjórnarskrána vegna þess hvernig hún varð til í upphafi.

Þarna er komin ný atvinnugrein sem miklar vonir eru bundnar við og við viljum byggja hana upp og gefa henni möguleika. Ég geri ráð fyrir að ég og hæstv. sjávarútvegsráðherra séum sammála um að veita þessari nýju atvinnugrein alla þá möguleika sem kostur er, ekki síst í sjávarbyggðunum sem eiga undir högg að sækja. Þetta er líka örugglega arðvænleg atvinnugrein og hún þarf að byggjast upp. Hún þarf að leggja töluvert fjármagn í stofnkostnað, stofnbúnað, markaðssetningu o.s.frv.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi látið kanna hvort þær aðgerðir sem hér er verið að leggja til án neinna sérstakra mótvægisaðgerða verði ekki of dýrar fyrir þessa nýju atvinnugrein. Hvort hún verði ekki kyrkt í upphafi ef henni verður gert að kaupa sig inn í fiskveiðiheimildir sem aðrar atvinnugreinar fengu upprunalega þegar kvótakerfið var sett á án þess að greiða fyrir þær. Hvort hún verði ekki kyrkt í byrjun með því að steypa henni inn í þetta kvótakerfi sem öllu ætlar að velta um koll í byggðunum vítt og breitt um landið ef ekki koma til mótvægisaðgerðir vegna þessarar nýju atvinnugreinar eða tekinn frá einhver sérstakur pottur sem ekki þarf að greiða fyrir.