135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:16]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Í þessu máli, hæstv. sjávarútvegsráðherra, verður maður að skoða heildarmyndina og líka út frá þeim meginreglum sem gott fiskveiðistjórnarkerfi á að ganga eftir, þ.e. sjálfbærri þróun. Eru þessar veiðar sjálfbærar? Falla þær að hugmyndafræði um sjálfbæra þróun sem er aðalatriði þessa máls?

Í frumvarpinu er lagt til að veiðar í atvinnuskyni, ef eigandi eða útgerð báts tekur gjald af þeim, falli undir kerfið. Ég velti þessu máli fyrir mér, ég set stórt spurningarmerki við þetta. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að margir óvissuþættir væru í þessu máli og ég er algjörlega sammála honum. Gengur frumvarpið ekki of langt? Er ekki seilst út fyrir svið þessara stærri veiða á Tálknafirði og víðar, inn í tómstundaveiðarnar? Yfirtekur þetta ekki allan pakkann? Yfirtekur þetta ekki líka neysluveiðar, til eigin neyslu á leigubátum? Þetta eru spurningar sem vakna í huga mínum og fleiri og ég geld varhuga við frumvarpinu. Ég verð reyndar að segja að það var margt brýnna sem þörf var á að laga í fiskveiðistjórnarkerfinu en þessi þáttur, en um það verður fjallað í sérstöku þingmáli á eftir.

Ég geld varhuga við frumvarpinu og ég tel það ekki alveg hugsað til enda. Ræða mín snýst frekar um spurningar og að varpa upp þeim álitaefnum sem upp koma en að lýsa einhverri endanlegri afstöðu. Ég get ekki stutt málið eins og það er lagt upp hér. Ég vil rökstyðja það að nokkru leyti.

Ég verð að minna á að þær veiðar sem um ræðir sem hófust, ef ég man rétt, á Tálknafirði og eru stundaðar frá Suðureyri og heimabyggð hæstv. ráðherra, Bolungarvík. Þær eru gagnmerk nýjung í ferðaþjónustunni, við erum öll held ég sammála um það. Það er engin tilviljun að þessar veiðar séu teknar upp í smærri sjávarbyggðum sem verst hafa farið út úr kvótakerfinu. Það má allt eins segja að þetta séu heimagerðar mótvægisaðgerðir hugsandi fólks í þessum byggðum sem reynir hvað það getur að búa í sínu þorpi, búa á sínum stað, og reynir að búa sér til atvinnu. Þetta eru staðir sem hafa farið verulega illa út úr kvótakerfinu, ýmist hefur kvótinn verið seldur brott eða skertur svo verulega að það hafi ekki verið fjárhagslegar forsendur til atvinnuveiða.

Það er algjörlega ljóst mál að þessar veiðar hafa stóreflt þessar byggðir. Þær hafa að nokkru leyti snúið vörn í sókn. Ég hef áhyggjur af því að ef grannt er skoðað í þessum mjög opna texta að frumvarpið kunni að koma þessum veiðum í uppnám. Ég hygg líka að frumvarpið kunni að koma því í uppnám að menn veiði til eigin neyslu, hvort sem um er að ræða Íslendinga eða útlendinga, eftir því hvernig þeir kjósa að haga sér varðandi neysluveiðarnar. Á sama tíma og þetta gerist, þetta frumvarp kemur fram, er hins vegar opnað fyrir heimildir fyrir togveiðar á grunnslóð fyrir Suðurlandi og víðar. Það tel ég mjög alvarlegt mál miðað við stöðu þorskstofnsins.

Það eru svo, eins og hæstv. ráðherra sagði, afar margir óvissuþættir í þessu máli. Ég verð að segja það, hæstv. ráðherra, að rökstuðningurinn í frumvarpinu er að mínu mati ónógur. Það skortir tölulegar upplýsingar, það eru engar tölulegar upplýsingar um heildarveiði samkvæmt þessu, hvaða áhrif það hafi á kvótakerfið sem slíkt hvort þessar veiðar skapi einhvern vanda — þær eru auðvitað vistvænar eins og frekast getur orðið — hvort einhver hætta sé á að hróflað sé við markmiðum fiskveiðistjórnarkerfisins. Eru þessar veiðar til þess fallnar að spilla fyrir markmiðum fiskveiðistjórnarkerfisins? Getum við svarað því játandi eða neitandi? Ég get svarað því með því að fara í þessi markmið og fullyrt að frumvarpið gengur í það minnsta gegn tveimur meginmarkmiðum þess.

Fiskveiðistjórnarlögunum er ætlað að vernda fiskstofna og þeim er ætlað að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra. Er einhver hætta á ferðum varðandi fiskstofna fyrir þessar stangaveiðar, sjóstangaveiðar? Er hún fyrir hendi? Erum við að setja fiskveiðistjórnarkerfið í uppnám? Það er algjörlega órökstutt í þessu frumvarpi og meðan ekki liggur fyrir sönnun fyrir því að við séum að setja þetta kerfi í uppnám eigum við að leyfa þessu að halda áfram eins og það er. Þar með er ég ekki að segja að hæstv. ráðherra eigi ekki að fylgjast með, afla gagna og upplýsinga, skrá niður tölur og sjá hvaða áhrif þetta hefur. En í dag liggur ekkert á borðinu um það að ástæða sé til að takmarka þessi atvinnuréttindi. Sá sem það gerir hefur sönnunarbyrði fyrir því að það sé réttlætanlegt. Það er mín nálgun. Engar rannsóknir á þessum þætti liggja fyrir. Eru þessir ferðaþjónustuútgerðarmenn á Tálknafirði að spilla fiskstofnum fyrir Vestfjörðum? Eða í Bolungarvík? Getum við svarað því játandi svo að víst sé? Ég get það ekki, þetta eru vistvænar veiðar.

Það er algjörlega öruggt, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að frumvarpið gengur gegn hinum tveimur meginmarkmiðum fiskveiðistjórnarlaganna, þ.e. að treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Frumvarpið gengur gegn þessum brýnu markmiðum og ekki var á slæmt ástand bætandi á þessum stöðum. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. ráðherra, að mér finnst frumvarpið vera hreintrúarstefnufrumvarp, smásmugulegt, og ekki taka á þeim vanda sem blasir við og við séum að þessu leyti komin út í öfgar nema ég sé sannfærður um það í umfjöllun fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að fiskstofnarnir séu í voða út af þessu. Ég ítreka að það breytir því ekki að það þarf að fylgjast hér með.

Af því að ég sagði í upphafi ræðu minnar að frumvarpið væri of víðtækt, hæstv. sjávarútvegsráðherra, á ég við að það tekur til allra þessara veiða. Það er mjög mismunandi hvernig að þeim er staðið. Það eru skoðunarferðir sem eru farnar á bátum, klukkutíma eða tveggja til þriggja tíma ferðir, þar sem í gangi er hvalaskoðun, fuglaskoðun og náttúruskoðun í víðustu merkingu. Hluti af þessari fjögurra tíma ferð er kannski hálftíma til þriggja kortera stopp þar sem hver ferðamaður um borð getur gripið í sjóstöng og veitt einn, tvo, þrjá, fjóra fiska, tíu fiska kannski, bara til að upplifa þá ánægju og spennu sem því fylgir.

Síðan er hin hliðin á þessum peningi, útgerðin eða ferðaþjónustan frá þessum smærri stöðum, t.d. Tálknafirði, Suðureyri og Bolungarvík, þar sem útlendingar og fleiri koma í stórum stíl, sem betur fer, og veiða hugsanlega meira, einhver hundruð kílóa. Ég sé ekki betur, og ég spyr. Mér sýnist frumvarpið taka á hvoru tveggja og ég spyr: Tekur það til þess ef ég leigi bát til veiða til eigin neyslu? Samkvæmt orðanna hljóðan gerir það það. Er það markmiðið? Ég hefði kosið, ef á að feta inn á þessa slóð, að breyta fiskveiðistjórnarlögunum, að fyrst væri vandinn greindur og aflað tölulegra upplýsinga og athugað gjörla hvort einhver hætta sé á ferðum fyrir fiskstofna við landið. Ganga þessar veiðar gegn meginreglunni um sjálfbæra þróun? Fyrr get ég ekki samþykkt það.

Í öðru lagi má skoða hvort ekki eigi að setja einhver mörk. Eigum við að vera að eltast við tíu fiska eða eigum við að setja einhver mörk á þessa báta, ef aflinn fer yfir ákveðið hámark gilda lögin? Við eigum ekki að eltast við smámuni í málum sem geta lagt stein í götu þessarar merku nýjungar í ferðaþjónustu. Við eigum ekki að gera það, við eigum ekki að taka þá áhættu, sér í lagi þegar þær byggðir sem ég nefndi á nafn áðan eiga í hlut, byggðir sem standa afar illa.

Ég verð líka að benda á að þeir sem hafa stundað ferðaþjónustuna og fiskveiðar í samblandi við hana hafa átt í umtalsverðum erfiðleikum við að kaupa kvóta því að margir þeirra veiða út á kvóta þegar þó að þetta frumvarp virðist teygja sig miklu lengra en til þessara aðila. Þeir hafa átt í miklum erfiðleikum og ég velti fyrir mér og spyr hæstv. ráðherra hvort hann vilji beita sér fyrir því að efla þá byggðakvótann til þess sérstaklega að mæta þessum veiðum. Það væri afar skynsamleg mótvægisaðgerð sem væri hægt að hrinda af stað strax vegna þess að samkvæmt lögum um fiskveiðistjórn hefur, ef ég man rétt, hæstv. ráðherra leyfi til að breyta úthlutun innan fiskveiðiársins, að vissu marki.

Ferðaþjónustuútgerðarmenn á Tálknafirði lentu í erfiðleikum síðsumars vegna kvótans, það var ekkert framboð, og nú þegar búið er að ákveða skerðingu í þorski um 30% blasa við miklir erfiðleikar í þessari ferðaþjónustu næsta sumar. Ég þykist vita að hæstv. ráðherra hafi skilning á þeim vanda og ég beini þeim eindregnu tilmælum til hans að íhuga það vel og vandlega og bæta í byggðakvótann beinlínis til að styrkja slíka starfsemi á þessum stöðum sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir betur til en sá sem hér stendur.

Það kemur sem sagt til greina að setja mörk, það sé leyfilegt að veiða að ákveðnu marki og kvótabinda fyrir ofan það. Það kemur líka til greina sjálfstæð kvótaúthlutun til þessarar ferðaþjónustu, eins og ég nefndi, í gegnum byggðakvóta eða með öðrum hætti. Til þess hefur ráðherra heimild. Ég minni á að önnur starfsemi í Djúpinu, þorskeldi eða fiskeldi í sjó, fær sérstaka úthlutun. Það er atvinnustarfsemi sem ég set samasemmerki við. Þetta treystir byggðina við Djúpið og byggðirnar þar sem þorskeldið fer fram. Þetta er af nákvæmlega sama meiði þótt ólíkt sé, ferðaþjónusta og þorskeldi.

Það má líka hugsa sér að úthluta til þessara veiða í rannsóknarskyni, það er líka hugsun bak við það. Aðalatriðið er að skoða hvort þessar veiðar eins og þær eru stundaðar í dag gangi gegn markmiðum okkar í fiskveiðistjórnarlögunum. Fyrir því ber hæstv. ráðherra sönnunarbyrði. Þetta eru sannarlega vistvænar veiðar og eins og málið er hér lagt fyrir núna get ég ekki stutt það. Auðvitað mun hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoða það ítarlega og vonandi m.a. svara þeim spurningum sem ég hef hér lagt upp með.